Loftgæðamælingar löngu tímabærar í Mosfellsbæ
Mengun í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í kastljósi fjölmiðla á undanförnum árum og hafa sveitarfélögin brugðist við með því að setja upp stöðvar til að mæla loftgæði.
Engin slík stöð er í Mosfellsbæ og hefur Íbúahreyfingin nú lagt til í bæjarstjórn að úr því verði bætt. Tillagan felur í sér að stöðinni verði komið fyrir í grennd við Vesturlandsveg við Varmá en þar er líklegt að þörfin á mælingum sé brýnust.
Öryggismál að gera íbúum viðvart
Tillaga Íbúahreyfingarinnar miðar að því að tryggja öryggi íbúa. Tveir skólar og íþróttaæfingasvæði Mosfellinga að Varmá eru í kvosinni sem Vesturlandsvegurinn liggur um og því fyllsta ástæða til að hefja þar loftgæðamælingar.
Mikil fjölgun ferðamanna og uppgangur í byggingarframkvæmdum hafa haft í för með sér umtalsverða aukingu umferðar stórra ökutækja um Mosfellsbæ. Því fylgir útblásturs- og svifryksmengun.
Upplýsing er til alls fyrst. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nota niðurstöður loftgæðamælinga til að gera íbúum sínum viðvart þegar mengun fer yfir heilsuverndarmörk og er hægt að fylgjast með mælingum í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar og víðar. Fólk með öndunarfærasjúkdóma er sérstaklega viðkvæmt fyrir loftmengun og sömuleiðis börn og ungmenni sem enn eru að taka út vöxt. Útblásturs- og svifryksmengun er auk þess talin vera krabbameinsvaldandi.
Heilsueflandi samfélag
Mosfellsbær tekur þátt í verkefni landlæknisembættisins um heilsueflandi samfélag. Í ljósi þess er viðeigandi að afla upplýsinga um þætti sem hafa áhrif á heilsu íbúa og birta niðurstöður í rauntíma á vef Mosfellsbæjar eins og nágrannasveitarfélögin gera.
Áður á dagskrá
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar hefur áður óskað eftir loftgæðamælingum í Mosfellsbæ og leiddi það til þess að sett var upp svokölluð farstöð á áhaldahús Mosfellsbæjar sem vaktaði um nokkurra vikna skeið brennisteinsmengun frá jarðhitavirkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Minni þörf er á því nú þar sem Orkuveitan hefur hafið hreinsun á útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun.
Loftgæða- og hávaðamælingar voru einnig á dagskrá að frumkvæði Íbúahreyfingarinnar þegar ákveðið var að hefja aftur skólahald í Brúarlandi við Vesturlandsveg og var hvorutveggja þá kortlagt en sá hængur var á að niðurstöður studdust ekki við mælingar, heldur einungis staðlaða útreikninga.
Vísað til fjárhagsáætlunar 2019
Á fundi bæjarstjórnar í vikunni vísuðu fulltrúar D-, S- og V-lista tillögu Íbúahreyfingarinnar til fjárhagsáætlunargerðar 2019 en hún verður afgreidd þegar nær dregur jólum 2018. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar greiddi þeirri tillögu ekki atkvæði sitt. Ástæðan er sú að mengun í andrúmslofti mælist mest í vetrarstillum og snemma vors eða frá nóvember til apríl.
Ef við bíðum með að taka ákvörðun til áramóta hefjast loftgæðamælingar ekki í Mosfellsbæ fyrr en vetri er að mestu lokið 2019 sem þýðir að verkefnið gæti frestast til þarnæsta vetrar.
Sigrún H. Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar