Litið yfir heilsuárið 2017
Árið var sérstaklega tileinkað lífsgæðum þar sem horft var til allra áhersluþátta heilsueflandi samfélags, þ.e. næringar og mataræðis, hreyfingar og útivistar auk geðræktar og vellíðunar.
Gulrótin 2017
Heilsudagurinn var haldinn í júní sl. og hófst að venju með hressandi morgungöngu á Mosfell í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Einnig var blásið til glæsilegs málþings í FMOS þar við heyrðum m.a. af mörgum flottum verkefnum í skólum bæjarins, skyggðumst á bak við tjöldin á EM með Þorgrími Þráinssyni og urðum margs vísari um mikilvægi einstaklingsins í sterkri liðsheild.
Síðast en ekki síst var Gulrótin, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, afhent í fyrsta sinn. Verðlaunahafinn að þessu sinni var Svava Ýr Baldvinsdóttir, íþróttakennari, en hún hefur í áratugi eflt lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ.
Stekkjarflöt og strandblakvöllur
Þetta skemmtilega útivistarsvæði okkar Mosfellinga hefur heldur betur fengið andlitslyftingu og er sannkölluð útivistarparadís fyrir fjölskylduna. Í þessu fallega umhverfi er að finna skemmtileg leiktæki, grill og nýjasta viðbótin er strandblakvöllur sem hefur notið mikilla vinsælla. Við hvetjum alla til að koma út að leika og nýta það sem þetta frábæra svæði hefur upp á að bjóða.
Hreyfivika UMFÍ
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og síðustu ár og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg, mun fleiri stóðu fyrir viðburðum og þátttakan hefur aldrei verið betri. Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra að ári.
Upplýst börn
Í haust gáfu Heilsuvin og Mosfellsbær í samvinnu við TM öllum nemendum í 1. og 2. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar endurskinsvesti til eignar. Vestin voru afhent í tengslum við verkefnið Göngum í skólann og eru mikilvægur liður í öryggismálum yngstu grunnskólanemendanna sem eru að byrja að ganga, hjóla eða ferðast á annan virkan hátt í skólann.
Lýðheilsugöngur FÍ
Ferðafélag Íslands stóð fyrir Lýðheilsugöngum á landsvísu alla miðvikudaga í september og gengið var á tveimur stöðum í Mosfellsbæ undir leiðsögn heimamanna, úr Álafosskvos og upp á Úlfarsfell úr Hamrahlíðarskóginum.
Óhætt er að segja að Mosfellingar hafi hafi tekið þessu framtaki vel og fór þátttaka fram úr björtustu vonum enda margir göngugarpar í heilsubænum Mosfellsbæ.
Þetta er eingöngu hluti af því sem var gert á árinu og við hlökkum til þess sem árið 2018 ber í skauti sér. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja og óskum ykkur heilbrigði og gleði á nýju ári.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ