Býður sig fram til að leiða listann áfram

halli1

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri mun bjóða sig fram til að leiða lista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ tók ákvörðun um það fyrir nokkru að viðhaft skyldi prófkjör við val á lista og fer það fram 10. febrúar nk. Haraldur hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og verið bæjarstjóri Mosfellsbæjar frá október 2007. „Ég hef brennandi áhuga á sveitarstjórnarmálum og vil bjóða fram krafta mína og reynslu til að vinna að málefnum Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili. Ég er Mosfellingur inn að beini og hef notið þess að vinna fyrir bæjarbúa sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri undanfarin ár og langar til að halda því áfram,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Haraldur er giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi og forstöðumanni hjá Fjársýslu ríkisins og á hann þrjú börn Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára.