Báru félaga sinn upp á topp Úlfarsfells
Krakkarnir í 8. bekk Lágafellsskóla brölluðu ýmislegt síðustu skóladaga fyrir sumarfrí.
Meðal annars fóru nemendurnir í göngu upp á Úlfarsfellið. Hlynur Bergþór Steingrímsson, sem er í hjólastól, á greinilega góða vini í sínum bekk því þeim fannst ómögulegt að Hlynur kæmist ekki með.
Þeir gerði sér því lítið fyrir og rifu Hlyn upp úr stólnum og báru hann upp á topp. Strákarnir voru sjö talsins og skiptust á að bera Hlyn upp með skipulögðum hætti. Í mesta brattanum hjálpuðust þeir svo að til að ná takmarkinu.
Frábært framtak hjá félögunum sem fengu mikið lof fyrir. Frumkvæðið var þeirra og allir í skýjunum eftir vel heppnaða fjallaferð.
Á myndinni má sjá Hlyn og hans traustu vini, Ísak Tuma, Ísak Mána, Anton, Hallgrím, Guðmund, Eyþór og Kristófer Mána áður en lagt var í gönguna.