Mosfellsbær á iði
Nú á vordögum og í byrjun sumars er og verður heilmikið um að vera í heilsubænum okkar til að koma blóðinu á hreyfingu, gleðjast með okkar nánustu og auðga andann.
Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður nú haldin dagana 28. maí – 4. júní nk. Þessi vika er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu á sama tíma. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020.
Að venju verður heilmikið um að vera í Mosfellsbæ og má finna dagskrá sem uppfærist jafnóðum á heimasíðu verkefnisins www.iceland.moveweek.eu auk þess sem upplýsingar verða birtar fésbókarsíðum Mosfellsbæjar og Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Hver er þín uppáhalds hreyfing?
Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2017
Dagurinn verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 1. júní nk. og byrjum við daginn að vanda á hressandi morgungöngu með Ferðafélagi Íslands á bæjarfellið Mosfell. Um kvöldið verður, líkt og síðustu ár, blásið til myndarlegs málþings í Framhaldsskólanum þar sem mikilvægi samvinnunnar svífur yfir vötnum.
Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og starfsmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun skyggnast á bak við tjöldin á EM og útskýra hversu miklu máli hver einstaklingur skiptir í sterkri liðsheild, við heyrum einnig frá fulltrúum skólanna okkar og fleira skemmtilegt verður á boðstólnum. Eins og alltaf er aðgangur ókeypis, boðið verður upp á léttar veitingar og allir hjartanlega velkomnir.
Örgöngur FÍ í Mosfellsdal
Ferðafélag Íslands býður nú í maí upp á þrjár örgöngur í Mosfellsdal með Bjarka okkar Bjarnasyni. Göngurnar hófust sl. þriðjudag skv. ferðáætlun FÍ en jafnframt verður gengið þriðjudagana 23. maí og 30. maí kl. 19:00. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu FÍ www.fi.is og á Fésbókarsíðu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Göngurnar eru ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Hjólað í vinnuna
Nú er lýðheilsuverkefnið Hjólað í vinnuna á lokametrunum en það stendur stendur til 23. maí nk. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Virkur ferðamáti er frábær kostur til þess að koma hreyfingu inn í daglega rútínu og hvetjum við ykkur eindregið til að prófa.
Fyrirmyndardagurinn
Að lokum verður að minnast á Fyrirmyndardaginn sem Mosfellsbær stóð fyrir um liðna helgi. Þar kom saman vaskt og hugmyndaríkt fólk sem stóð m.a. fyrir fyrsta Íslandsmeistaramótinu í YFIR, ratleik í Reykjalundarskóginum, grilli á miðbæjartorginu, hjólagleði á hjólabrautinni okkar, tónleikum ungs og efnilegs listafólks o.fl. Í gærkvöldi tóku síðan nemendur í FMOS og vinaliðar í grunnskólunum höndum saman og fóru í útileiki í hverfum bæjarins. Sannkallað fyrirmyndarverkefni!
Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í öllu því sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega líka mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ