Að rækta skóg
Að rækta skóg er eins og að gefa nýtt líf. Þú setur fræ í mold, fylgist með að sjá það spíra og verða að pínulítilli plöntu. Mörg ár munu líða þangað til þessi litlu kríli verða að tjám.
Við sem ræktum skóg lítum á tré sem vini. Þetta eru lifandi verur sem vinna fyrir okkur á margan hátt, t.d. búa til súrefni, veita okkur skjól, gefa næringar- og byggingarefni, jafna úrkomu og draga þar með úr flóðahættu og margt fleira. Ekki síst eru skógar með eftirsóttustu útivistarsvæðum.
Tré eru lengi að vaxa úr grasi og okkur skógarvinum þykir miður hve kæruleysislega sumir haga sér. Má þá til dæmis nefna utanvegaakstur (bæði jeppar, vélsleðar og fjórhjól) þar sem litlar plöntur troðast undir og skaddast. Klukkutímaskemmtun á torfærutækjum getur valdið tjóni sem verður ekki bætt á mörgum árum.
Skógræktarfélögin á landinu hafa lyft grettistaki í að koma upp dásamlegum skógarsvæðum víða um land. Árum saman hafa menn einbeitt sér að pota niður trjáplöntum, en nú þegar vöxtulegir skógar hafa myndast verða verkefnin smám saman önnur.
Nú þarf að búa til stíga, grisja, hafa upplýsingar aðgengilegar og sinna umönnun í þessum „gömlu“ skógum þannig að þetta verkefni megi áfram dafna og vaxa, mönnum til gagns og gamans.
Nú er í auknum mæli verið að opna eldri skóga og gera þá aðgengilega fyrir almenning. Þörf er á að fagmenn komi að umsjón og umhirðu skógarsvæðanna og sem betur fer fjölgar menntuðum skógfræðingum frá ári til árs.
Markviss umönnun og umhirða skógarsvæða gerist ekki án þess að ríkið og sveitarfélögin komi að þessu með auknu fjármagni. Skógræktarfélögin hafa hvorki peninga né vinnuafl til að geta sinnt þessu.
Við og okkar afkomendur þurfum að læra að umgangast náttúruna af alúð og virðingu. Að rækta skóg er mannbætandi. Skólarnir ættu að fá svigrúm og fjármagn til að sinna þessu mikilvæga uppeldisverkefni. Börn sem fá viðeigandi uppeldi og fræðslu munu kenna foreldrum sínum þegar heim er komið.
Úrsúla Jünemann.
Höfundur starfar í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.