Bætt aðstaða til líkamsræktar í þjónustumiðstöð eldri borgara
Ný tæki hafa verið tekin í notkun í hreyfisal þjónustumiðstöðvar eldri borgara að Eirhömrum. Mosfellsbær keypti fjölþjálfa (Cross Trainer) af gerðinni Nustep T4r í byrjun ársins.
Tækið gefur góða þol- og styrktarþjálfun og hentar flestum, einnig þeim sem eru með skerta færni. Notkun þess gefur mjúka og eðlilega hreyfingu þar sem lágmarksálag er á liðum og það er auðvelt í notkun. Öldungaráð Mosfellsbæjar beitti sér ötullega fyrir kaupum á tækinu.
Lionsklúbburinn dyggur stuðningsaðili
Þá bætti Lionsklúbbur Mosfellsbæjar um betur og gaf hlaupabretti og þrekhjól í salinn. Við val á tækjunum var sérstaklega horft til notendahópsins og þess að tækin væru þægileg og auðveld í notkun.
Lionsklúbburinn hefur verið dyggur stuðningsaðili öldrunarþjónustu bæjarfélagsins undanfarna áratugi. Árið 1980 gaf klúbburinn sex þjónustuíbúðir, auk fjölda annarra gjafa sem hann hefur gefið síðan til öldrunarþjónustunnar.
Reglubundin hreyfing mikilvæg
Líkamsþjálfun eldra fólks er mikilvæg og sýna rannsóknir að með reglubundinni hreyfingu er hægt að hægja á öldrunarbreytingum sem verða í líkamanum með hækkandi aldri.
Þá er sýnt að reglubundin hreyfing gagnast bæði líkama og sál. Hreyfisalur í þjónustumiðstöðvarinnar er fyrst og fremst ætlaður þeim eldri borgurum sem geta ekki nýtt sér almenningsaðstöðu íþróttamiðstöðvanna í Mosfellsbæ.
Sú stefna bæjaryfirvalda að tryggja þessum einstaklingum möguleika á reglubundinni hreyfingu er í samræmi við stefnu bæjarfélagsins sem Heilsueflandi samfélags.