Senda matinn heim að dyrum
Hákon Örn Bergmann eigandi Hvíta Riddarans er ánægður með viðtökurnar við breytingum á matseðlinum og heimsendingarþjónustu sem staðurinn fór nýverið að bjóða upp á.
„Það eru komnir nýir réttir á seðilinn, steikur og fleira sem gerir okkur að meiri veitingastað. Að sjálfsögðu eru ennþá allir vinsælustu réttirnar okkar líka á sínum stað. Við leggjum mikla áherslu á að maturinn og þjónustan hjá okkur sé góð, ánægður viðskiptavinur er besta auglýsinginn,“ segir Hákon og bætir við að staðurinn fái góð ummæli á Tripadvisor.
Frí heimsending til kl. 3 um helgar
„Við erum nýfarin að bjóða upp á heimsendingarþjónustu á öllum matseðlinum okkar. Við bjóðum upp á þessa þjónustu hér í Mosfellsbæ til að byrja með, en erum jafnvel að skoða að bjóða Kjalnesingum upp á heimsendingar ákveðna daga í viku.
Heimsendingin er frí ef pantað er fyrir meira en 2.500 kr. Ég veit ekki til þess að það séu fleiri staðir að senda heim allt það sem er á matseðlinum hjá þeim. Enn sem komið er eru pítsurnar vinsælastar í heimsendingu en þess má geta að við erum með heimsendingu á þeim til kl. 3 á föstudags- og laugardagskvöldum.“
Heimilismatur í hádeginu
Hvíti Riddarinn býður upp á heimilismat í hádeginu og hlaðborð á föstudögum. „Það er yfirleitt þétt setið hjá okkur í hádeginu og við leggjum mikinn metnað í að vera með góðan heimilismat á góðu verði. Á föstudögum erum við með lambalæri, pítsur og fleira og svo kaffi og kökur í eftirrétt.“
Það er heilmikið fram undan á Hvíta Riddaranum. „Við reynum að vera með fjölbreytta dagskrá hjá okkur. Næstu stóru viðburðir eru kvennakvöld í byrjun mars, FIFA-mót, Pubquiz, bingó og fleira,“ segir Hákon að lokum.
Matseðil Hvíta Riddarans er hægt að finna á Facebook-síðu staðarins.