Þremur lóðum í Sunnukrika úthlutað undir hótelbyggingu
Lóðum við Sunnukrika 3-7 hefur verið úthlutað undir hótelbyggingu og aðra þjónustu er tengist ferðamönnum.
Lóðirnar við Sunnukrika eru vel staðsettar með tilliti til sýnileika og samgangna og þar er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði. Það er félagið Sunnubær sem er í eigu verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. sem fékk lóðunum úthlutað.
Hafin er vinna við frumhönnun í samræmi við gildandi skipulag sem samþykkt var árið 2005.
Uppbygging að hefjast á kaupfélagsreit
Nýlega hafa verið gerðir samningar sem munu hafa mikil áhrif á ásýnd miðbæjarins. Kaupfélag Kjalarnesþings hefur selt eignir sínar á svokölluðum kaupfélagsreit og kaupendur gert samkomulag við Mosfellsbæ um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.
Íbúðirnar bætast við það framboð sem nú þegar er gert ráð fyrir í miðbænum og er í skipulagsferli. Alls munu því rísa um 200 íbúðir á næstu misserum við Háholt, Bjarkarholt og Þverholt.
Meðal annars er gert ráð fyrir því að kaupfélagshúsið sem staðið hefur ónotað í nokkurn tíma víki. Þess í stað verði byggðar 65 íbúðir fyrir 50 ára og eldri.
Samningurinn gerir ennfremur ráð fyrir því að Mosfellsbær fái yfirráð yfir lóðum við Háholt 16-18 þar sem núverandi skipulag gerir ráð fyrir kirkju og menningarhúsi.
Aukin verslun og þjónusta
„Af þessu má vera ljóst að ásýnd miðbæjarins mun breytast til hins betra á allra næstu árum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Byggingar sem hafa verið áberandi á svæðinu eins og Háholt 23 og áðurnefnt kaupfélagshús við Háholt 24 munu víkja og þess í stað rís íbúðarhúsnæði. Ég held að við getum gert ráð fyrir því að aukin verslun og þjónusta muni fylgja þéttingu íbúðabyggðarinnar og stækkandi bæjarfélagi.“