Bubbi
Ég er ánægður með að Bubbi Morthens sé að æfa hjá Höllu og Hjalta í Eldingu. Bubbi er fyrirmynd. Lætur ekki festa sig inn í ákveðnum ramma. Ég þekki Bubba ekki persónulega, hef aldrei hitt hann, en hann hefur haft mikil áhrif á mig.
Það var sterk upplifun þegar ég, í stoppi hjá Siggu frænku á Hvammstanga á leiðinni í sveitina, heyrði Ísbjarnarblús í fyrsta skipti. Ég var ellefu ára. Mér fannst þetta geggjað. Hrátt, kraftmikið, lifandi. Fyrsta tónlistin sem ég virkilega tengdi við. MB Rosinn var í sérstöku uppáhaldi. Við fylgdumst að í gegnum unglingsárin, ég og Bubbi. Hann bjó til músíkina, ég hlustaði. Tónleikar með honum voru upplifun. Ég komst því miður ekki á tónleika með Utangarðsmönnum, en sá Egó spila á Lækjartorgi og Bubba sjálfan hér og þar.
Lögin hans hjálpuðu mér þegar ég svæfði og róaði guttana mína fjóra. Hélt á þeim á öxlinni og söng fyrir þá Aldrei fór ég suður og Blindsker. Þeir voru kröfuharðir, þetta þurftu að vera tónleikaútgáfur. Ég þekki nýrri plötur Bubba ekki eins vel og þær fyrstu, en ég hef alltaf dáðst að því hvað hann hefur verið duglegur að fylgja hjartanu. Óhræddur við að prófa nýja hluti. Spila með ólíkum listamönnum, alls konar tónlist. Skrifa texta sem skipta hann máli. Segja það sem honum finnst.
Hann er líka fyrirmynd að því leyti að hann heldur sér líkamlega í formi. Sinnir sjálfum sér í stað þess að leyfa sér að drabbast niður. Bubbi er 13 árum eldri en ég en er í miklu betra formi heldur en margir af jafnöldrum mínum. Hann er gott dæmi um að aldur er afstæður. Maður er eins gamall og maður vill vera. Það að hann sé að æfa í Eldingu er viðeigandi. Hrár, lifandi, heimilislegur æfingastaður í hjarta Mosfellsbæjar. Njótum ferðalagsins!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. febrúar 2017