2017

2017_gaui

Þetta verður frábært ár. Ég veit það. Ég byrjaði árið reyndar á því að ná mér í leiðindapest sem gerði sitt besta til að draga úr mér mátt og þor, en hún er farin og ég nú sprækur sem lækur. Ég hef alltaf haft gaman af áramótum. Séð þau sem tækifæri til þess að velta fyrir sér lífinu og gera breytingar til góðs. Það er gott að byrja á því að hreinsa aðeins til, þá býr maður til rúm og tíma fyrir það sem mann virkilega langar til að gera.

Eitt af því sem ég ákvað í þessu ferli var að hreyfa mig meira en ég hef gert undanfarin ár. Ég hef farið í göngutúra og æft reglulega, en það er ekki nóg fyrir mig. Ég er búinn að sitja allt of mikið. Mér líður langbest, bæði líkamlega og andlega, ef ég hreyfi mig mikið yfir daginn. Sit minna við skrifborðið. Ég er núna í því að finna bestu blönduna, hvernig ég get látið þetta tvennt vinna sem best saman. Skrifborðsvinnan gefur mér nefnilega mikið svo lengi sem ég sit ekki of lengi við í einu.

Mín leið, sú sem ég er að innleiða hjá sjálfum mér núna í byrjun árs, er ekki flókin. Hún felur í sér að nota skrifborðstímann í að vinna og læra, ekki í afþreyingu eða andlegt hangs. Þannig bý ég mér til tíma til þess að hreyfa mig meira. Sem gefur mér orku og kraft til þess að vinna betur þegar ég sest aftur við. Hausinn virkar betur þegar líkaminn er búinn að fá sitt. Á hreyfilista ársins eru ketilbjöllu- og útiæfingar, körfubolti á planinu, sjósund, jiu jitsu, klifur, skriðsund og köfun. Langar líka að læra á standandi róðrarbretti hjá Stjána Vald og lofa sjálfum mér hér með að gera það í vor. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. febrúar 2017