Nýr klórbúnaður tekinn í notkun í sundlaugunum
Fjárfest hefur verið í nýjum klórgerðarbúnaði fyrir sundlaugar Mosfellsbæjar.
Búnaðurinn framleiðir klór úr matarsalti þar sem rafstraumur er notaður til að kljúfa saltið í frumefni sín. Þegar þau efni blandast vatninu myndast efni sem hentar vel til sótthreinsunar í sundlaugum. Mosfellsbær er eitt af fyrstu sveitafélögum landsins til að taka í notkun slíkan búnað.
Umhverfisvænt og hagkvæmt
Kaupin á klórgerðarbúnaðinum samræmast vel umhverfisstefnu Mosfellsbæjar þar sem lögð er áhersla á að minnka notkun hættulegra efna sem skaðað geta lífríkið. Auk þess eru helstu kostir nýrra kerfa lítill framleiðslukostnaður og engin flutningur á hættulegum efnum.
Fyrir sundlaugargesti þýðir þetta að klórlyktin minnkar talsvert. Sviði í augum og húðerting minnkar og efnin fara betur með sundfatnað.
Borgar sig upp á 5-6 árum
Gert er ráð fyrir því að kerfin verði komin upp bæði í Varmárlaug og Lágafellslaug í febrúar næstkomandi. Búnaðurinn kostar um 58 milljónir króna en lækkun á rekstrarkostnaði kemur til með að spara umtalsverðar fjárhæðir sem borgar kerfin upp á 5-6 árum, samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar Mannvits.
Það eru Vatnslausnir ehf. sem selja kerfið frá hollenskum framleiðanda, Van den Heuvel.
>>> Í Varmárlaug voru notuð tæp 12 tonn af klór á árinu 2015. Í Lágafellslaug fóru rúm 25 tonn af klór á árinu 2015.