Vinafáir skattgreiðendur og metnaður þingmanna
„Ef það hreyfist skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, um skattastefnu vinstri manna.
Skattgreiðendur eiga fáa vini og enga meðal vinstri manna. Útgjaldasinnar og þeir sem standa í þeirri trú að flest vandamál sé hægt að leysa með því að auka útgjöldin, eiga sér hins vegar marga málsvara og harða stuðningsmenn. Millistéttin – burðarásinn í íslensku samfélagi og skattkerfi – getur ekki reiknað með að milliþrep í tekjuskatti verði fellt niður, ef vinstri flokkarnir mynda ríkisstjórn eftir kosningar. Sjálfstæðir atvinnurekendur ættu einnig að hafa áhyggjur líkt og eldra fólk þegar eignaskattar verða innleiddir að nýju undir hatti auðlegðarskatts, líkt og vinstri flokkarnir hóta. Það verður gengið hart fram í anda skattastefnu vinstri stjórnar sem kenndi sig við norræna velferð.
Það virðist vera erfitt fyrir vinstri menn að læra það sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, reyndi að kenna samverkamönnum sínum fyrir liðlega 50 árum:
„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“
Í komandi alþingiskosningum verður tekist á um stefnuna í skattamálum og þar með möguleika okkar til að byggja sameiginlega upp öflugt heilbrigðis- og almannatryggingakerfi. Það verður tekist á um það hvort við nýtum tækifærin sem hafa skapast til að ráðast í umfangsmiklar innviðafjárfestingar í samgöngum og í menntakerfinu, með því að gæta hófs í álögum ríkisins. Barátta skattgreiðandans að fá að ráðstafa sjálfur sem mestu af sjálfsaflafé sínu er hins vegar ójöfn. Kröftugir sérhagsmunahópar hvetja skattmann áfram og þeir eru studdir af öflugum fjölmiðlum.
Ég mun taka mér stöðu við hlið skattgreiðandans og millistéttarinnar. Verði ég kjörinn þingmaður Suðvesturkjördæmis vil ég brjóta gamla og útelta mælistiku sem notuð er fyrir Alþingi. Mælistiku sem búin hefur verið til af fjölmiðlum og meirihluta þingmanna og miðast við að sem flest mál séu afgreidd. Því fleiri lagafrumvörp og því fleiri þingsályktanir því betra er þinghaldið. Afkastamikið þing er sagt gott þing. Ráðherrar eru vegnir og metnir út frá fjölda lagafrumvarpa sem þeir leggja fram. Fjölmiðlar hampa þeim þingmönnum sem hæst og oftast tala.
Gæði og skýrleiki lagasetningar er orðið aukaatriði en einstaklingum og fyrirtækjum er ætlað að starfa innan ramma óskýrra lagatexta og fyrirmæla og síbreytilegra leikreglna.
Metnaður þingmanna á ekki að vera bundinn við hversu mörg mál þeir afgreiða. Metnaðurinn á að vera bundinn í efni og innihaldi, skýrleika og einfaldleika. Um leið eiga þingmenn að grisja lagafrumskóginn, einfalda gildandi lög og gera þau skýrari, takmarka heimild til setningar reglugerða og vinna að því að auka svigrúm einstaklingsins, í stað þess að sækja að honum.
Óli Björn Kárason
Höfundur býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.