Stórskotalið Mosfellinga tekur þátt í hátíðarlagi
Vinkonurnar Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir hafa samið og gefið út hátíðarlagið Í túninu heima. Þær eru gamlar vinkonur úr Mosó og hafa unnið saman í tónlist og leiklist síðan þær voru 13 ára.
Agnes lærði leiklist og leikstjórn í London og Sigrún lærði tónlist og fiðluleik í Bandaríkjunum. Báðar hafa þær mikið komið við sögu í Leikfélagi Mosfellssveitar auk þess sem þær bralla heilmikið með sviðslistahópnum þeirra, Miðnætti.
Lagið hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur en það fór í loftið í byrjun vikunnar.
Tónlistarmyndband í loftið
„Lagið varð til seint að kvöldi fyrir um ári síðan þar sem við vorum að æfa leikritið „Út úr hól“ sem er byggt á íslenskum þjóðsögum og var sýnt á bæjarhátíðinni,“ segja þær stöllur. „Okkur langaði að vekja athygli á sýningunni svo að fólk kæmi að sjá hana. Við sungum lagið inn seint um kvöld og hentum því á Facebook, en sólarhring síðar vorum um 5.000 manns búnir að horfa á myndbandið.“
„Svo fóru hjólin að snúast og nú ári seinna höfum við tekið lagið upp og gert tónlistarmyndband í samstarfi við Mosfellsbæ og fjölda frábærra listamanna og bæjarbúa. Arnór Sigurðarson upptökustjóri og Ágúst Elí Ásgeirsson kvikmyndagerðamaður unnu með okkur frábært starf, sem og allir söngvararnir og leikararnir, en um 100 manns tóku þátt í verkefninu.“
Í túninu heima
Lag: Sigrún Harðardóttir, texti: Agnes Wild
Er sumrinu lýkur þá sjáum við sólina minna.
Ég fyllist af þreytu og skríð síðan beint uppí ból.
Hausinn legg ég á koddann minn
og hugsa‘ um næsta dag.
Var næstum búin/nn að gleyma – Í túninu heima!
Ég vakna um morgun og maginn
er fullur af spennu.
Ég skreyti allt húsið og keppnina vinna skal.
Klæðist í hverfa litinn minn, þetta byrjar allt í dag.
Er mig kannski að dreyma? – Í túninu heima!
Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
en hann lifnar alltaf við í túninu heima.
Barabbabararara, barabbabarara
Ég ætla alls ekki’ að gleyma – Í túninu heima!
Gunna á móti er búin að taka út grillið.
Ég háma‘ í mig pylsu og skunda í brekkusöng.
Hitti góða kunningja og kannski gamlan séns.
Um sveitina ég sveima – Í túninu heima!
Í gulu og rauðu og bleiku og bláu er bærinn.
Nú gleðjumst við saman og allir í góðum gír.
Í öllum regnbogalitunum og til í hátíðarhöld.
Hey, þarna er köttur að breima! – Í túninu heima!
Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
En hann lifnar alltaf við í túninu heima.
Kjúklingahátíð og tónlist úr görðunum ómar.
Klæðum okkur upp og kíkjum á sveitaball.
Fjölskyldur gleðjast saman hér á miðbæjartorginu.
Allir í bæinn streyma! – Í túninu heima!
Á hverju ári finnst mér bærinn vera‘ allsber,
en hann lifnar alltaf við í túninu heima.
Barabbabararara, barabbabarara
Ég ætla alls ekki’ að gleyma – Í túninu heima!
Barabbabararara, barabbabarara
Því að bærinn lifnar alltaf við,
já ég hlakka allt of mikið til
og ég ætla‘ alls ekki að gleyma í túninu heima.
Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2016 (pdf)