3. desember
Ég á góða vini sem eiga afmæli í dag, góðan frænda líka. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa gaman af fótbolta og vera síðastir heim úr gleðskap. Til lukku með daginn kappar!
En það eru fleiri góðir sem eiga afmæli í dag. Lífsförunauturinn minn, hún Vala, á líka afmæli í dag. Við kynntumst fyrir 24 árum og 2 dögum og höfum verið saman síðan. Ég, Árbæingurinn, bjargaði henni úr hinum svarthvíta Vesturbæ og eftir smá millilendingu í Danmörku höfum við búið í sveitinni fögru. Hvað hefur þetta með heilsu að gera? Á þetta ekki að vera heilsumoli? Rólegur minn kæri, þetta hefur allt með heilsu að gera. Góður maki skiptir þig og þína heilsu gríðarlega mikla máli. Ef makinn er letihaugur, hefur engan áhuga á hreyfingu, borðar allt sem að kjafti kemur, djammar allar helgar og sefur fram á miðjan dag, eru minni líkur á því að þú náir að lifa heilsusamlegu lífi.
Ef hins vegar þú ert svo heppinn, eins og ég, að eiga maka sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að vera heilsuhraustur, þá vænkast þinn hagur verulega. Það getur verið mjög skemmtilegt og hvetjandi að æfa saman. Við Vala náum vel saman í gegnum ketilbjöllurnar. Við höfum líka gaman af því að ganga saman úti í náttúrunni og synda í heitum sjó. Við æfðum Taekwondo saman í nokkra mánuði, líka brasilískt jiu jitsu. Spinning – sem hún elskaði og ég bara alls ekki. Squash var ævinóvemberem endaði með látum. Sums staðar nær maður saman í hreyfingu, annars staðar ekki. Aðalmálið er að makinn sé á svipaðri línu og þú varðandi heilsuna. Hvetji þig áfram, sendi þig á æfingu frekar en að reyna að halda þér heima í sófanum, æfi með þér, hrósi þér. Til hamingju með afmælið mín eina og takk fyrir árin 24!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. desmber 2015