12 ár
Sæll Sir, ég ætla að byrja að skrifa reglulega pistla um heilsu/hreyfingu/æfingar. Hefurðu áhuga á að fóstra þessa pistla í Mosfellingi? Að ég væri með fastan dálk þar.“
Þetta sendi ég Hilmari ritstjóra 1. ágúst 2013. Fékk til baka. „Já, er það ekki bara snilld?“ Hann var strax til í þetta, setti mér einn ramma, 300 orð, en gaf mér annars 100% frelsi.
Ég man ekki almennilega af hverju ég fékk þessa hugmynd en veit að pistlarnir hafa gefið mér mikið. Ég hef þörf fyrir að skrifa og á einhvern hátt líka þörf fyrir að koma því góða sem ég læri á framfæri þannig að aðrir geti nýtt sér vitneskjuna líka. 300 orða ramminn er frelsandi, þetta er rýmið, nýttu það eins vel og þú getur. Þú færð ekki meira pláss. Ég svindlaði reyndar í fyrsta pistlinum, um æfingu guðanna, upphífingar. Hann var 400 orð. En síðan hef ég haldið mig við 300 orð og skrifað um það sem hefur verið mér efst í huga á hverjum tíma. Flest, vonandi, heilsutengt.
Í covid stakk ég aðeins af til Danmerkur til þess að vinna með pistlana – las þá alla og flokkaði með það fyrir augum að gefa þá út. Einhvers konar samantekt. Ég á þessa samantekt en hef ekkert gert meira með útgáfu. Vinnan sjálf var nóg. Að pæla í því sem ég hafði skrifað, hvort það meikaði enn sens.
Nú, rúmum tólf árum síðar, ætla ég að segja stopp. Ekki af því að þörfin fyrir að skrifa hafi minnkað, það er alls ekki þannig. En allt hefur sinn tíma og það er vel tímabært að hleypa nýjum pistlahöfundum að. Þó fyrr hefði verið, hugsa örugglega margir, en ég vona nú samt og ætla að trúa að þessir pistlar hafi orðið einhverjum heilsueflandi hvatning.
Takk kærlega fyrir mig. Stay alive!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. nóvember 2025




