100% samvera
Lífið er púsl. Vinna, skóli, verkefni, áhugamál, æfingar, fjölskylda, vinir, viðburðir og svo framvegis. Það getur verið snúið að láta plön ganga upp, ná því sem maður ætlaði að ná. Oftar en ekki kemur eitthvað upp á sem breytir plönum, eitthvað óvænt sem þarf að sinna eða tækla. Ég á stundum erfitt með þetta. Finnst best að byrja daginn snemma, hafa góðan tíma til að sinna sjálfum mér, fara í gegnum morgunrútínuna mína. Það gengur ekki alltaf upp. Ég er að verða að betri í að tækla þetta, er kominn með ör-morgunrútínu sem viðheldur venjum og að rúlla hratt í gegnum hana er miklu betra en að gera ekki neitt.
Samvera með fjölskyldunni gefur mér mikið og er í forgangi hjá mér. Ég upplifði í vikunni mjög góða samverustund með afastrákunum mínum. Var búinn að taka að mér að passa þá í hálftíma á meðan foreldrar þeirra tækju þátt í æfingu. Ég var tæpur að ná þessu, fundur í vinnunni varð aðeins lengri en áætlað og ég þurfti að drífa mig heim til þess að verða ekki of seinn í verkefnið. Það hafðist og það var yndislegt að koma beint á pössunarvaktina. Ég tók við hlutverkinu af mínum yngsta sem var á leiðinni á æfingu sjálfur. Stubbarnir brostu hringinn þegar þeir sáu afa og tóku fagnandi á móti mér. Við horfðum saman á spennandi barnaþátt um smábáta í norsku sjávarþorpi. Settumst svo inn í eldhús þar sem við fengum okkur að borða og fórum saman í gegnum öll þau dýrahljóð sem við kunnum og mundum eftir. Þvílík gæðastund. Ekki nema hálftími. Það var mikil núvitund að detta inn í þeirra heim beint eftir vinnu. Svo kláruðu foreldrar þeirra sína æfingu og skutluðust heim með guttana sína.
Samverustundir þurfa ekki að vera langar til að vera góðar og gefandi.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. janúar 2025