10.000
Ég týndi skrefamælinum mínum í Flatey fyrir einu og hálfu ári. Síðan þá hef ég ekki mælt hvað ég er að hreyfa mig mikið dags daglega. Ekki fyrr en núna í febrúar. Þá ákvað ég að setja mér það markmið að ganga allavega 10.000 skref á dag í 50 daga. Af hverju? Í fyrsta lagi vegna þess að ég var farinn að hafa á tilfinningunni að ég hreyfði mig ekki nóg dags daglega.
Í öðru lagi vegna þess að ég hef bæði gaman og gott af því að fara í gegnum áskoranir sem krefjast aga og viljastyrks. Ég bauð fleirum að taka áskoruninni með mér. 50 daga áskorunin inniheldur fleiri þætti svo sem ákveðið mataræði og æfingar og við sem tökum þátt veitum hvert öðru aðhald og stuðning. Ég nota símann núna til að mæla skrefin en langar aftur í einfaldan skrefamæli. Það er ljóst að ég hef ekki verið að hreyfa mig nóg síðan ég var í Flatey. Ég æfi reglulega styrk og liðleika og hef gert lengi, en yfir daginn hef ég greinilega setið of mikið við tölvuna. Reglulegar æfingar einar sér eru ekki nóg fyrir okkur. Ég þarf að hafa fyrir skrefunum á þann hátt að ég þarf að fara í 2-3 göngutúra yfir daginn. Annars næ ég þeim ekki. Ég byrja á morgungöngum, frábær byrjun á degi. Við erum í viku 2 í 50 daga áskoruninni og göngutúrarnir eru að gefa mér mikið. Bæði líkamlega og andlega.
Við erum gerð til þess að ganga, mannfólkið, og ef við sinnum því ekki erum við að vanrækja eigin líkama og hug. Veður skiptir engu máli. Góðir skór og útivistarföt eru svarið við þeirri afsökun. Ég er kominn á þá skoðun að ganga sé grunnurinn að góðri heilsu. Ef við vanrækjum hana verðum við að vesalingum. Einfaldlega.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. febrúar 2018