Vér göngum svo léttir í lundu…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

…því lífsgleðin blasir oss við, kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef maður leggur textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið.
Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið eins og niðurstöður rannsókna bera með sér. Nú á vordögum og í byrjun sumars er einmitt heilmikið um að vera í heilsubænum okkar til að koma blóðinu á hreyfingu og auðga andann.

Hjólað í vinnuna
Nú er í gangi lýðheilsuverkefnið Hjólað í vinnuna sem stendur frá 4.- 24. maí. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu.
Virkur ferðamáti er frábær kostur til þess að koma hreyfingu inn í daglega rútínu og hvetjum við ykkur eindregið til að prófa. Nánari upplýsingar má finna á www.hjoladivinnuna.is

Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður nú haldin í fyrsta sinn að vori dagana 23.-29. maí nk. Hreyfivikan er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu á sama tíma. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020 og eru allir hvattir til að finna sína uppáhalds hreyfingu.
Að venju verður heilmikið um að vera í Mosfellsbæ og má finna dagskrá sem uppfærist jafnóðum á heimasíðu verkefnisins www.iceland.moveweek.eu auk þess sem upplýsingar verða birtar á www.mos.is og www.heilsuvin.is og fésbókarsíðum beggja aðila.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2016
Dagurinn verður haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 25. maí nk. og byrjum við daginn á hressandi morgungöngu með Ferðafélagi Íslands meðfram hinni fallegu strandlengju í bænum okkar. Um kvöldið verður að venju blásið til myndarlegs málþings í Framhaldsskólanum þar sem gleðin verður í hávegum höfð.
Edda Björgvinsdóttir, leikkona og gleðigjafi, mun fræða okkur um hvernig við getum nýtt húmor og gleði í samskiptum og almennt í hinu daglega lífi, Skólakór Varmárskóla mun stíga á stokk, við fáum kynningu á appinu Sidekick Health og svo mætti lengi telja. Að venju er aðgangur ókeypis, boðið verður upp á léttar veitingar og allir hjartanlega velkomnir.

Við hvetjum ykkur sem fyrr eindregið til að taka þátt í dagskránni sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ