Umhverfismál í forgangi

Bjartur Steingrímsson

Árið 2019 varð vitundarvakning í umhverfismálum á meðal almennings hér á landi sem og annars staðar.
Loftslagsverkföll ungmenna vöktu alþjóð til vitundar um það neyðarástand sem hefur skapast í loftslagsmálum og hve aðkallandi það er fyrir samfélög heimsins að bregðast við ástandinu með markvissum aðgerðum. Þegar rætt er um þessi mál er augljóst að umbætur þurfa að eiga sér stað í stóra samhenginu jafnt sem því smáa.

Síðastliðið sumar vann umhverfisnefnd Mosfellsbæjar í samráði við íbúa bæjarins nýja umhverfisstefnu fyrir bæinn til ársins 2030. Þar kennir ýmissa grasa sem endurspegla í senn sérstöðu okkar sem sveitarfélags og einnig vilja til að vera til fyrirmyndar í því hvernig við hugsum um og önnumst nærumhverfi okkar.
Umhverfisstefnan er unnin með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbærni, framsýni og virðingu fyrir náttúrunni. Slík gildi eru stór hluti af því sem gerir Mosfellsbæ að eftirsóttum og aðlaðandi bæ og góðum stað til að búa á.

Við Mosfellingar búum við þau forréttindi að geta gengið örstutt frá heimilum okkar um náttúruperlur á borð við Blikastaðahringinn, þar hægt er að virða fyrir sér mikið fuglalíf og selina sem liggja á oft á steinum við Leiruvoginn.
Ekki er síður skemmtilegt að fara að Álafossi, ganga eftir skógivöxnum stígnum með Varmánni og upp á þau fjölmörgu fell sem umkringja bæinn okkar. Slík nánd við dýralíf og náttúru er ekki einungis yndisauki og afþreying, heldur forréttindi og gott veganesti inn í lífið fyrir yngri kynslóðir sem alast upp hér í bænum.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kjörnir fulltrúar sem og aðrir starfsmenn Mosfellsbæjar eru ávallt að leita leiða til að verða umhverfisvænni. Starfsmenn í áhaldahúsi bæjarins hafa nýlega skipt út bensíndrifnum verkfærum fyrir rafmagnsknúin, fjárfest í nýjum rafmagnsbíl sem notaður verður í garðyrkju og sorphirðu og tekið markviss skref í að minnka plastnotkun.
Vistvænar samgöngur, orkuskipti og grænt skipulag eru meðal fjölmargra forgangsatriða Mosfellsbæjar í umhverfismálum og má ætla að með uppbyggingu Borgarlínu og glæsilegs nýs miðbæjar muni ásjóna bæjarins breytast mjög til hins betra.

Við undirrituð ætlum að leggja okkar af mörkum til að vernda og bæta umhverfið hér í Mosfellsbæ og gaman væri að fá bæjarbúa í lið með okkur við það. Margt smátt gerir eitt stórt og ef allir bæjarbúar myndu skoða reglulega hverju þeir gætu breytt og hvernig hægt væri að gera betur á árinu 2020 gætum við unnið þrekvirki í umhverfismálum.

Kæru Mosfellingar, tökum höndum saman um að árið 2020 verði enn betra í umhverfismálum en árið 2019.

Formaður Umhverfisnefndar Bjartur Steingrímsson f.h. Vinstri grænna
og varaformaður umhverfisnefndar, Kristín Ýr Pálmarsdóttir f.h. Sjálfstæðisflokksins.