Taktu þátt, kjóstu þinn fulltrúa í bæjarstjórn!

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fer fram 10. febrúar.
Mikilvægt er að sem flestir íbúar taki þátt í að velja fólk á listann og hafa þannig áhrif á gang mála í bæjarfélaginu.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjörinu þann 10. febrúar og hér að neðan eru helstu áherslur mínar varðandi rekstur og þjónustu bæjarins á næstu misserum.

Rekstur og þjónusta
Bæjarmálin snúast um að veita hágæða þjónustu sem þjónar hagsmunum allra bæjarbúa. Mikilvægt er að kappkosta að forgangsraða í fjárfestingum á vegum bæjarins og gæta aðhalds þegar kemur að stórum og dýrum framkvæmdum. Það er mikilvægt því það eru mörg verkefni sem þarf að ráðast í á næstu misserum á vegum bæjarins.
Á sama tíma er það forgangsmál að halda álögum á íbúa sem lægstum. Það þarf að skoða hvort svigrúm sé til að lækka fasteignaskatta enn frekar en þegar hefur verið gert, og þá sérstaklega á eldra fólk.

Íþrótta og tómstundamál
Mosfellsbær er lýðheilsu- og íþróttabær. Að mínu mati þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu í bænum umfram það sem þegar er búið að ákveða. Hér má nefna viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem innihéldi nýja búningsklefa, fjölnota rými sem myndi nýtast Varmárskóla í kennslu og öðrum verkefnum, og sem félagsaðstaða fyrir íþrótta og tómstundafélög í Mosfellsbæ. Það bráðvantar annan gervigrasvöll í fullri stærð, ný gólfefni á íþróttasalina að Varmá og lagfæra aðstöðuna á Tungubökkum.
Þetta eru víðtæk og stór verkefni en mjög aðkallandi. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að finna leiðir og fjármagn til þess að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Framúrskarandi aðstaða er lykillinn að því að tómstundastarf blómstri.
Hröð fjölgun íbúa og iðkenda kallar á hraða uppbyggingu í þessum málum.

Skólamál
Í Mosfellsbæ eru góðir skólar og leikskólar og þar starfar frábært starfsfólk.
Mosfellsbær leggur áherslu á að skólarnir og leikskólarnir okkar séu í fremstu röð, þar á öllum að líða vel. Með fjölgun bæjarbúa eykst álag á skólana sem ekki má bitna á á faglegu starfi þeirra. Hér má nefna húsnæðismál og ráðningar faglærðs fólks bæði í skóla og leikskóla. Það þarf að bæta starfskjör og aðstöðu kennara og fagfólks innan skóla og leikskóla bæjarins.

Skipulagsmál, umhverfismál og samgöngur
Skipulags og umhverfismál eru stórir málaflokkar í Mosfellsbæ. Stækkun bæjarins og ný hverfi þarf að byggja upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru.
Við eigum einstaka náttúru allt í kring um bæinn okkar og þurfum að passa upp á grænu svæðin og halda áfram uppbyggingu á göngustígum o.fl.
Samgöngumál verða einnig fyrirferðarmikil á næstu árum og miklar breytingar fram undan í þeim málum. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi þegar umferðarmál í og umhverfis bæinn eru mótuð. Þar þurfa bæjaryfirvöld að taka virkan þátt með nágrannasveitarfélögum í að móta raunhæfar hugmyndir bæði varðandi einkabílinn og almenningsamgöngur.

Málefni og velferð eldri borgara
Hlutfall fólks 65 ára og eldra mun hækka verulega á næstu árum samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Málefni eldri borgara í Mosfellsbæ eru að mörgu leyti í góðu horfi en það þarf að hlúa enn betur að sumum málefnum þessa hóps. Plássleysi er farið að há félagsstarfi og það þarf að virkja betur lýðheilsustefnu fyrir þennan hóp. Það vantar t.d. stærri aðstöðu fyrir skipulagða leikfimi. Aukin áhersla á lýðheilsu eldri borgara er mjög góð fjárfesting, stuðlar að betri heilsu, auknum lífsgæðum og styrkir félagslega virkni og tengsl þeirra.

Látum verkin tala
Það eru skemmtilegir og krefjandi tímar á næsta kjörtímabili í rekstri Mosfellsbæjar og mikilvægt að bæta úr þar sem þörf er á ásamt því að grípa tækifærin sem gefast.
Ég býð fram krafta mína og víðtæka reynslu sem stjórnandi úr atvinnulífinu auk mikillar reynslu úr félagsmálum til þess að vinn af krafti og heilindum að þeim verkefnum.
Ég óska eftir stuðningi þínum í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Ásgeir Sveinsson