Skólinn í öndvegi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Breytingar á Varmárskóla
Í Mosfellsbæ fer fram framúrskarandi skólastarf í fjölbreyttu skólaumhverfi. Mosfellsbær með fagfólkið í fararbroddi hefur sýnt frumkvæði í skólastarfi eins og t.d. með 200 daga skóla fyrir yngsta skólastigið og með opnun skóla fyrir 2–9 ára börn. Hróður skólastarfsins fer víða og er áhugafólk um menntamál tíðir gestir í okkar skólum.
Fræðsluyfirvöld í Mosfellsbæ ásamt stjórnendum skólanna skoða stöðugt alla daga hvað megi gera betur í skólamálum. Hluti af því er að skólarnir fái úttekt hjá Menntamálastofnun og nú síðast fékk Varmárskóli úttekt sem mun leiða af sér töluverðar breytingar.

Breytingar á Varmárskóla
Bæjarráð samþykkti að fela Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra og Lindu Udengård framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs að láta framkvæma úttekt og mat á stjórnskipulagi Varmárskóla.
Sú úttekt fór fram haustið 2020 og var fenginn til verksins Haraldur Líndal Haraldsson hjá HLH ráðgjöf sem hefur viðamikla þekkingu á starfsemi sveitarfélaga og skólamálum. Haraldur Líndal lagði fram tillögur og hefur ein þeirra verið lögð fram í bæjarráði og fræðslunefnd og kynnt fyrir hagaðilum eins og stjórnendum, starfsfólki og foreldrum. Lagt er til að Varmárskóla verði skipt upp í tvo sjálfstæða skóla með skólastjóra ásamt stjórnendateymi í hvorum skóla. Það var mat Haraldar Líndals að með þessu fyrirkomulagi náist markvissari stjórnun á málefnum hvors skóla fyrir sig.

Arna Hagalínsdóttir

Fram undan eru krefjandi en uppbyggilegir tímar er gefa Varmárskóla tækifæri til að byggja upp nýja skóla á sterkum grunni og skapa þannig áfram gott og öflugt skólastarf börnum okkar í hag.
Allt er þetta hluti af þeirri stöðugu endurskoðun á skólastarfi því við viljum alltaf gera betur. Til þess eru m.a. gerðar þjónustukannanir og íbúar spurðir hvernig þeim líkar þjónustan sem bærinn veitir.

Könnun á þjónustu Mosfellsbæjar
Ár hvert gerir Gallup könnun á þjónustu sveitarfélaga og hefur Mosfellsbær tekið þátt í mörg ár. Niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður fyrri ára og einnig við önnur sveitarfélög. Niðurstöður eru kynntar í bæjarráði og nefndum bæjarins með það að markmiði að bæta þjónustuna enn frekar bæjarbúum til hagsbóta.
Það er ánægjulegt frá því að segja að Mosfellsbær situr í efstu sætum meðal bæjarfélaga á Íslandi eins og undanfarin ár.

Framúrskarandi leikskólar
97% svarenda segjast mjög ánægðir með þjónustu leikskólanna en mikil áhersla hefur verið lögð á að auka þjónustu leikskólanna. Má nefna fjölgun plássa á ungbarnadeildum og samkomulag meirihlutans um lækkun leikskólagjalds um 25% á kjörtímabilinu.
Nú er svo komið að Mosfellsbær býður upp á lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og ljóst að Mosfellsbær hefur á að skipa góðu fagfólki á leikskólum bæjarins.
Ánægja með þjónustu grunnskólanna minnkar aðeins á milli ára og bókaði fræðslunefnd á fundi sínum að rýnt yrði í niðurstöður með sérstakri foreldrakönnun og rýnihópum og fá þannig að vita hver upplifun foreldra er. Einnig á að skoða þau mælitæki og niðurstöður sem þegar eru til staðar í innra og ytra mati skólanna.
Vert er að nefna að bæjaryfirvöld leggja höfuðáherslu á framúrskarandi faglegt starf svo hægt sé að mæta ólíkum nemendahópum. Þannig gerum við góða skóla enn betri.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir situr í fræðslunefnd