Samgönguvika í Mosfellsbæ 16.-22. september

Tómas G. Gíslason. Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Tómas G. Gíslason.
Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Dagana 16.-22. september mun Mosfellsbær taka þátt í Evrópsku samgönguvikunni, European Mobility Week í tíunda sinn.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti.

Yfirskrift samgönguvikunnar í ár er Veljum. Blöndum. Njótum.

Í Mosfellsbæ verður ýmislegt gert til að vekja athygli á samgönguvikunni og er reynt að bjóða upp á viðburði alla daga samgönguvikunnar.
Í upphafi samgönguvikunnar mun Mosfellsbær í samstarfi við Umhverfisstofnun og Heilsuvin standa fyrir opnum fundi um heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ í tengslum við Dag íslenskrar náttúru miðvikudaginn 16. september. Fundurinn ber yfirskriftina Börn náttúrunnar og verður haldinn í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar frá kl. 17:30-19:00.
Föstudaginn 18. september verður haldið í Smárabíói opið málþing um vistvænar samgöngur, „Hjólum til framtíðar,“ í samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landsamtaka hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi, þar sem boðið verður upp á úrval innlendra og erlendra fyrirlesara.
Bíllausi dagurinn er þriðjudaginn 22. september og í tilefni dagsins mun Strætó bs. bjóða almenningi frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu og eru íbúar í Mosfellsbæ hvattir til að skilja bílinn eftir heima þann dag.

Af öðrum viðburðum má nefna BMX-hátíð sem haldinn verður á brettasvæðinu við Völuteig, Dr. Bæk býður upp á reiðhjólastillingar og smáviðgerðir, ný reiðhjólastæði verða formlega tekin í notkun innandyra í Kjarna, vakin athygli á úrvali hjólastíga í Mosfellsbæ og nýtt hjólreiðakort kynnt.

Ég vil hvetja alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu árlega átaki, draga fram reiðhjólið og njóta góðrar útiveru og heilsueflandi hreyfingar.

Frekari upplýsingar um samgönguvikuna má finna á heimasíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is/samgonguvika og á Facebooksíðu Samgönguvikunnar.

Tómas G. Gíslason
umhverfisstjóri Mosfellsbæjar

Greinin birtist í Mosfellingi 10. september 2015