Róbert Orri skrifar undir nýjan samning

robertorri2

Róbert Orri Þorkelsson hefur skrifað undir nýjan samning við Aftureldingu sem gildir út tímabilið 2020. Hinn 17 ára gamli Róbert Orri hefur alist upp allan sinn fótboltaferil hjá Aftureldingu og verið fastamaður á miðjunni hjá meistaraflokki undanfarin tvö keppnistímabil. Í fyrra hjálpaði hann Aftureldingu að vinna 2. deildina og í ár hefur hann leikið vel með liðinu í Inkasso-deildinni.
Róbert er úr öflugum 2002 árgangi hjá Aftureldingu sem varð Íslandsmeistari í 3. flokki í fyrra en hann átti að auki fast sæti í byrjunarliði U17 ára landsliðs Íslands sem fór í lokakeppni EM í vor.

Félög í Pepsi Max-deildinni hafa sýnt Róberti áhuga en hann ákvað að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Aftureldingu.
„Það er gríðarlegt fagnaðarefni að Róbert hafi framlengt samning sinn við Aftureldingu. Það er gleðiefni að ungir heimamenn hafi trú á uppbyggingunni sem er í gangi í Mosfellsbæ og vilji taka þátt í henni með okkur. Róbert er efnilegur leikmaður sem hefur verið gaman að fylgjast með í meistaraflokki undanfarin tvö ár og vonandi heldur hann áfram að bæta sig sem leikmaður hér í Mosfellsbæ,” sagði Geir Rúnar Birgisson, formaður meistaraflokksráðs.