Ræktum okkur sjálf í sumar!

Berta Þórhalladóttir

Sumarið er frábær tími til þess að rækta okkur og blómstra! Þar sem sólin skín hátt, dagarnir eru lengri og gleðin er við völd! Á sumrin erum við orkumeiri, njótum útiverunnar betur, förum oftar í sund og jafnvel niður á „strönd“.
Þegar við fækkum fötum vaknar ef til vill sjálfsóöryggið og púkinn á öxlinni byrjar að tala! En við ætlum ekki að láta púkann né óöryggið stoppa okkur í að njóta og gera það sem okkur langar í sumar!
Hér koma fimm atriði til að minna sig á til að njóta sumarsins í botn – fáklædd sem velklædd!

1. Notum líkamann okkar
Líkaminn okkar er mun meira en það sem við sjáum. Hann er gerður til að hreyfa sig, upplifa ævintýri, leika sér og framkvæma nýja hluti. Í stað þess að einblína á útlitið skulum við hugsa um styrkinn og frelsið sem líkaminn veitir okkur. Prófum nýja hluti eins og fjallagöngur, hjólreiðar, sjósund eða bara eitthvað sem veitir okkur vellíðan. Það eflir sjálfmyndina að sjá og upplifa hvað líkaminn okkar er fær um.

2. Iðkum þakklæti
Við erum oft of upptekin af því hvað megi betur fara þegar við skoðum líkamann. Með því að iðka þakklæti og þakka fyrir allt sem líkaminn gerir fyrir okkur getur margt breyst. Verum þakklát fyrir að geta gengið, teygt okkur, beygt okkur, hjólað, synt eða hlaupið. Sundlaugar landsins eru mikil auðlind. Er kannski kominn tími á sundferð?

3. Stundum jákvætt sjálfstal
Það er auðvelt að detta í niðurrrif. Sérstaklega þegar púkinn er mættur á öxlina! Þá er mikilvægt að vera meðvitaður um að hann sé mættur og grípa inn í og eiga falleg orð um okkur. Hvatningin styrkir okkur og heldur okkur á beinu brautinni.

4. Verðlaunum okkur
Hér er ekki verið að tala um mat eða nudd á hverjum degi heldur það að gera eitthvað sem veitir okkur raunverulega vellíðan daglega. Þetta eru litlu hlutirnir sem hjálpa okkur að líða vel eins og göngutúr, fara í bað eða heitan pott, hugleiða eða velja okkur þau verðlaun sem næra okkur og veita okkur orku. Þessar einföldu aðgerðir geta hjálpað okkur til að öðlast aukinn styrk og enn meiri vellíðan.

5. Hættum að fylgja þeim sem láta okkur líða illa á samfélagsmiðlum
Fylgjum fólki sem veitir okkur innblástur og vellíðan. Þar sem samfélagsmiðlar geta haft gríðarlega áhrif á líðan okkar, ýmist nært okkur eða dregið úr okkur orku. Það er okkar að velja það sem bætir okkur og kætir.

Látum ekki leiðindapúkann á öxlinni okkar halda aftur af okkur í sumar! Gerum það sem okkur langar og njótum þess að vera til. Við eigum það skilið!
Berum höfuðið hátt og verum stolt af sjálfum okkur!
Gleðilegt sumar!

Berta Þórhalladóttir