Nýr vefur fyrir íþróttafólk sem vill ná langt

biggivefur

Þau hjónin Linda Svanbergsdóttir og Birgir Arnaldur Konráðsson, betur þekktur sem Biggi Boot Camp, opnuðu á dögunum nýja vefsíðu þar sem áhersla er á tilbúin æfingaprógrömm fyrir íþróttafólk.
Þau hafa búið í Kaupmannahöfn í fjögur ár þar sem þau hafa kynnt og fylgt eftir Boot Camp-inu ásamt því að þjálfa, en Birgir fagnar um þessar mundir 25 ára þjálfaraafmæli.
„Það var alltaf einn og einn íþróttamaður í þjálfun hjá mér og svo fór að fjölga í þeim hópi. Það var orðin mikil eftirspurn eftir prógrömmum á netinu en við höfum verið að selja þau út um allan heim,“ segir Birgir.
Eins og staðan er núna er einna mest áhersla á handboltann þó svo að við sinnum vel öllum íþróttagreinum. Meðal þeirra sem hafa verið í þjálfun hjá Birgi eru Guðjón Valur handboltamaður og Rúnar Alex fótboltamaður.

Persónulegri þjálfun
„Við erum með tilbúin sérprógrömm fyrir undirbúniningstímabil og keppnistímabil, prógrömm með og án þyngda, fyrir unglinga og einnig úthaldsíþróttafólk, s.s. hlaupara og hjólara. Þessir stóru klúbbar eru flestir bara ótrúlega aftarlega hvað varðar styrktarþjálfun fyrir fólkið sitt, yfirleitt eitt prógram á alla, óháð stöðum og áherslum,“ segir Birgir.
Einnig bjóða þau upp á fjarþjálfun fyrir íþróttafólk sem byggist meira á daglegum samskiptum þar sem allt er sérsniðið að þörfum og dagsformi hvers og eins.
„Við stefnum svo á að gera aðra síðu á íslensku þar sem fókusinn er meiri á almenning.“

Undirbúningur fyrir Tindahlaupið
Birgir hefur yfirumsjón með Tindahlaupi Mosfellsbæjar fram fer laugardaginn 31. ágúst á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
„Þar er allt á sínum stað, við erum alltaf að gera hlaupið betra og betra. Við vorum að fá vottun á hlaupaleiðirnar frá alþjóðasamtökum um utanvegahlaup.
Þá eru leiðunum gefnir punktar eftir erfiðleikastigi. Sjö tindarnir fengu tveggja punkta viðurkenningu og 5 og 1 tindur fengu einn punkt,“ segir Birgir.
„Þessir punktar nýtast t.d. hlaupurum sem stefna á erfið utanvegahlaup erlendis, t.d. 100 km í Ölpunum. Þá þarf að vera búið að safna ákveðið mörgum punktum til að mega hlaupa.
Þessi vottun er virkilega mikill gæðastimpill á Tindahlaupið, en fá hlaup á Íslandi teljast til tveggja punkta hlaupa.“

Hægt er að kynna sér nýja vefsíðu á slóðinni www.coachbirgir.com