Mosfellsbær, bærinn okkar

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Um þessar mundir á sér stað mikil uppbygging í Mosfellsbæ á öllum sviðum. Fordæmalaus fjölgun varð í bæjarfélaginu á síðasta ári en þá fjölgaði bæjabúum um 8,2%.
Þetta er langmesta fjölgun á höfuðborgarsvæðinu og ein sú mesta á landinu. Ástæður þessarar miklu fjölgunar eru einkum tvær. Í fyrsta lagi er skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Í Mosfellsbæ hafa bæjaryfirvöld brugðist við því með miklu lóðaframboði í nýjum uppbyggingarhverfum bæjarins, Helgafelli og Leirvogstungu.
Í Helgafellshverfi einu og sér hafa t.d. verið byggðar rúmlega 600 nýjar íbúðir á undarförnum árum. Við Sjálfstæðisfólk í Mosfellsbæ höfum staðið vaktina og séð til þess að það hefur verið nægt lóðaframboð í Mosfellsbæ.

Rúmlega 300 umsóknir um 31 lóð
Önnur ástæða þess að svo mikil uppbygging er í Mosfellsbæ er að bærinn er vinsælt sveitarfélag til búsetu. Í þjónustukönnunum Gallup sem gerðar eru meðal 19 stærstu sveitarfélaganna ár hvert hefur Mosfellsbær ávallt verið í 1. eða 2. sæti á undanförnum árum þegar ánægja íbúanna er mæld.
Þetta endurspeglast í því að nýlega voru auglýstar rúmlega 30 lóðir lausar til umsóknar. Alls bárust rúmlega 300 umsóknir um þessa 31 lóð eða um 10 umsóknir á hverja lóð. Þessu til viðbótar er að fara af stað verkefni í miðbænum sem felur í sér um 250 nýjar íbúðir ásamt verslunarhúsnæði. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann mun samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og menningu ýmis konar. Það er vinsælt að vera Mosfellingur.

Aukin þjónusta og lægri álögur í stækkandi bæ
Svona mikil uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Helgafellsskóli er nú í byggingu og er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi hans verði tekinn í notkun um næstu áramót. Fullbyggður mun skólinn hýsa 6-800 nemendur og kosta um 3,7 milljarða króna. Önnur stór framkvæmd sem ráðist verður í á árinu 2018 er bygging knatthúss að Varmá og verður það um 3.800 fm að stærð. Auk knattspyrnuvallar verður í húsinu hlaupabraut ásamt göngubraut, áhorfendaaðstaða og snyrtiaðstaða. Húsið verður án alls efa bylting fyrir íþróttafólk, sérstaklega knattspyrnufólk, í Mosfellsbæ.
Samfara þessu hafa álögur lækkað í Mosfellsbæ. Verð á heitu vatn er nú um fjórðungi lægra en á þjónustusvæði Veitna, álagningahlutföll fasteignagjalda hafa lækkað verulega á síðustu tveimur árum.
Leikskólagjöld hafa lækkað, jafnframt því að leikskólaaldurinn hefur verið færður niður í 13 mánaða aldur, frístundaávísun hækkað um rúm 280% á kjörtímabilinu og stórátak gert í upplýsingatæknimálum skólanna svo eitthvað sé nefnt.
Þrátt fyrir þetta er rekstrarafkoma sveitarfélagsins góð en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2017 var rekstrarafkoman jákvæð um 560 mkr og skuldahlutfall fer lækkandi. Fjölgun íbúa ásamt traustum og ábyrgum rekstri gerir það að verkum að svona er hægt að standa að málum hjá Mosfellsbæ.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur Mosfellingum allir vegir færir.
Við Sjálfstæðisfólk höfum verið við stjórnvölinn í Mosfellsbæ síðan árið 2002. Á þeim tíma hefur þjónusta og rekstur sveitarfélagsins tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut og gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ, fáum við til þess umboð í kosningunum 26. maí.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ