Með umboð fyrir risaframleiðanda

bilasala2

Bræðurnir Pétur og Októ með glænýjan Fiat.

Bílaumboðið Ís-band hefur opnað glæsilegan sýningarsal nýrra bíla að Þverholti 6 en fyrirtækið flytur inn bíla frá bílaframleiðandanum Fiat Chrysler. Sýningarsalurinn er nú fullur af hinum ýmsu módelum frá Fiat, Jeep og Dodge og er þarna mikið úrval af bílum, allt frá minnstu smábílum upp í stóra jeppa.
Ís-band var stofnað 1998 af Októ Þorgrímssyni og var fyrst með aðsetur á heimili Októs áður en það fluttist í Funahöfða. Frá áramótunum 2008-2009 hefur fyrirtækið verið staðsett í Þverholtinu í Mosfellsbæ. Bílasalan 100 bílar hefur einnig verið staðsett í Þverholti en er nú alfarið flutt í Stekkjar­bakka í Mjódd. Þá er þjónustuverkstæði einnig rekið í Smiðshöfða 5.

Fyrirtækið vel mannað Mosfellingum
Að rekstri þessara fyrirtækja standa bræðurnir Októ og Pétur Þorgrímssynir en þeir hafa búið í Mosfellsbæ frá unga aldri. Þriðji eigandinn sem síðar kom inn í fyrirtækið er einnig Mosfellingur, Jóhannes Jóhannesson, en hann er framkvæmdastjóri þjónustusviðs.
Fleiri Mosfellingar starfa svo hjá Ís-Band. Þorgrímur Októsson faðir bræðranna hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2004. Sigurður­ Valgeir Óskarsson innkaupastjóri er svo borinn og barnfæddur Mosfellingur og Kristína Andrésdóttir sölustjóri fæddist hér og bjó til 5 ára aldurs.
Mosfellingar eru hvattir til að kíkja við í sýningarsalinn og skoða úrvalið en einnig er hægt að skoða á www.isband.is