Lífið er núna

Gaui er í útlegð. Þannig er það nú bara. Hann var sendur úr landi til að klára að skrifa bókina okkar um Blue Zone ferðalagið, á meðan held ég hlutunum gangandi hér heima. Það er heiður að taka við heilsu­molunum meðan á útlegð stendur. Ég hugsaði með mér að ég væri nú búin að vera með þessum „heilsuGaua“ í meira en 25 ár og hlyti að hafa lært eitthvað.

Ég byrjaði á að skrifa um heilsu. Eðlilega, þetta er heilsuhorn. Endaði í 5.000 orða pistli, svo ekki hef ég lært að vera stuttorð af Gaua. Þá fór ég að skrifa um tilgang, enda kenndu Blue Zone svæðin okkur að tilgangur er einn stærsti pósturinn í langlífi og vellíðan. Aftur, alltof langt. Svo nú bretti ég upp ermar og kem með stuttu útgáfuna af lífsreglunum. Höfum þetta í karlkyni. Af því bara.

Sinntu því sem gerir þig glaðan og lætur þér líða vel. Vertu góð manneskja, góður vinur og vertu samkvæmur sjálfum þér. Hlustaðu á aðra, við getum alltaf lært eitthvað nýtt, en hlustaðu þó mest á eigið hjarta. Þegar þú hefur tekið ákvörðun, stattu þá með henni, en mundu að þú ert ekki minni maður af því að hugsa málin aftur og skipta um skoðun. Hrósaðu öðrum og taktu eftir því sem vel er gert. Lífið verður skemmtilegra þannig. Vertu góður við sjálfan þig og aðra. Ef þú hefur gert eitthvað rangt, segðu þá fyrirgefðu og taktu ábyrgð. Taktu eftir litlu hlutunum, fuglunum, fallegu útsýni, hlýju brosi, góðu kaffi og öllu sem við tökum sem sjálfsögðu. Það eru þeir sem skipta máli og gera lífið svo gott.

Passaðu heilsuna, hún skiptir öllu. Klisjurnar „lífið er núna“ og „eitt líf – njóttu þess“ eru sannar. Þú nýtur lífsins með því að fara vel með þig, gera það sem lætur þér líða vel, ekki öðru hverju, heldur út lífið. Það sem þú ákveður í dag hefur áhrif á framtíðina. Leyfðu þér að dreyma og mundu að þú getur allt sem þú vilt. Þetta gat ég, stutt og laggott.

Heilsumolar Völu
Mosfellingur 20. febrúar 2020