Klörusjóður

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Nýsköpunar- og þróunarsjóður fyrir leik – og grunnskóla

Mosfellsbær hefur vakið athygli á landsvísu vegna framsækni og mikillar fjölbreytni í skólamálum. Skólarnir okkar, bæði leik– og grunnskólar og tónlistaskólinn eru mikilvægustu stofnanir bæjarins og þreytist ég seint á að tala og skrifa um hversu mikilvægir skólarnir eru. Það hefur líka sýnt sig að öflugt fræðslu– og frístundastarf laðar að barnafjölskyldur og hefur gert bæinn einn af bestu stöðum fyrir fjölskyldur að búa á.
Til að styðja enn betur við kennara og skólana okkar hefur verið stofnaður nýsköpunar– og þróunarsjóð fyrir fagfólk að sækja fjármagn í til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Sjóðurinn hefur fengið nafnið Klörusjóður og er tileinkaður Klöru Klængsdóttur (1920–2011) en Klara var kennari og sundkennari við Brúarlandsskóla og síðar Varmárskóla allan sinn starfsaldur.

Markmið sjóðsins
Skólar eru lifandi stofnanir og eru í sífelldri þróun í takt við hraða þróun samfélagsins. Í fjárhagsáætlun 2020–2023 var samþykkt að stofna nýsköpunar- og þróunarsjóð fyrir leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ. Markmið slíks sjóðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Með stofnun sjóðsins vill Mosfellsbær styðja enn betur við starf leik– og grunnskólakennara.

Skólar í þróun ná árangri
Mikilvægt er að efla starfsþróun innan skólanna og styðja við frekari nýsköpun. Mörg sveitarfélög hafa þegar stofnað álíka styrktarsjóði og nokkur eru með stofnun í burðarliðnum.
Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrk­afhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.
Rannsóknir sýna að starfsþróun er að miklu leyti undir þeim skilyrðum sem kennurum eru búin í skólum. Eitt af því sem einkennir þá skóla sem ná árangri í þróunarstörfum er að þeir skapa kennurum góð skilyrði að þessu leyti. Stofnanir eru stöðugt að læra og breyta og bæta. Skólar eru lifandi samfélög þar sem kennarar, stjórnendur og aðrir starfsmenn læra ekki síður en nemendur. Þannig er lífið.
Nýsköpunar- og þróunarsjóður er nýjung og verður vonandi til þess fallinn að efla enn frekar menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Frekari upplýsingar um reglur sjóðsins verður að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar innan skamms.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar