Flæði

gauisörf

Flæði er eftirsóknarvert ástand. Lykilatriði þegar kemur að vellíðan og hamingju. Flæði er þegar maður er að gera eitthvað sem manni finnst svo áhugavert, spennandi, gefandi eða skemmtilegt að maður gleymir öllu öðru. Spáir ekki í hvað klukkunni líður, hvað eigi að vera í matinn í kvöld eða hvað maður sé að fara að gera á morgun eða hinn. Það eina sem skiptir máli er það sem maður er að gera akkúrat núna.

Flæði er einstaklingsbundið. Það sem einn upplifir sem flæði getur öðrum fundist drepleiðinlegt. Það er eðlilegt, þótt við mannfólkið eigum margt sameiginlegt og séum félagsverur þá erum við um leið ólík. Brennum fyrir ólíkum hlutum. Vinnan okkar ætti að vera þannig að hún gæfi okkur kost á því að vera í flæði. Að við séum að sinna verkefnum sem okkur þykja áhugaverð og gefandi. Við höfum örugglega öll verið í vinnu þar sem tíminn virtist ekki líða. Stóð bara kyrr. Það er ekki flæði.

Því oftar sem við erum í flæði, því betur líður okkur. Best er að flæðislínur innan fjölskyldna séu að hluta sameiginlegar eða skarist á einhvern hátt þannig að einstaklingar innan þeirra upplifi gleði og hamingju við að gera hluti saman.
Lykilatriði er að velta þessu fyrir sér. Pæla í sjálfum sér og þeim sem standa manni næst. Hvað gefur okkur mest? Hvenær flýgur tíminn án þess að við tökum eftir því? Hvenær er ég svo niðursokkinn að ég tek ekki eftir neinu öðru?

Ég upplifði sjálfur magnað flæði í sjónum í síðustu viku. Á brimbretti, með fólkið mitt í kringum mig. Hvort ég náði öldu eða ekki skipti ekki máli. Það sem skipti máli var að vera úti í elementunum. Öldur, rigning, áskoranir, frelsi, samvera. Tíminn flaug, ekkert annað skipti máli eða komst að í þessa tvo klukkutíma. Mögnuð upplifun. Flæði.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. apríl 2019