Carpet í endurnýjun lífdaga

carpet á tónleikunum á akureyri 1998

Hljómsveitin Carpet á tónleikunum á Akureyri árið 1998.

Snemma á tíunda áratug síðustu aldar stofnuðu fjórir ungir piltar hljómsveit í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi.
Þetta voru þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson (trommur), Eyþór Skúli Jóhannesson (gítar), Arnar Ingi Hreiðarsson (bassi) og Jón Þór Birgisson (gítar, söngur).
Jón Þór yfirgaf hljómsveitina 1994 til að stofna aðra hljómsveit. Kristófer Jensson tók við míkrafóninum og síðar var kallaður til sögunnar Egill Hübner á gítar. Fékk hljómsveitin að lokum nafnið Carpet.

Upptökur að mestu glataðar
Hljómsveitin spilaði rokktónlist af miklum móð og var um tíma hálfgerð húshljómsveit í Rósenbergkjallara Sigurjóns Skæringssonar.
Ásamt reglulegu tónleikahaldi um víðan völl var hljómsveitin dugleg við lagasmíðar og tók upp nokkur lög fyrir fyrirhugaða plötuútgáfu, í hljóðverinu Núlist í Borgartúni undir handleiðslu fyrrum söngvarans Jóns Þórs og Kjartans Sveinssonar. Svo fór þó að pródúsentarnir urðu of uppteknir af tónleikahaldi um víða veröld að upptökur döguðu uppi og eru nú að mestu glataðar.

Tónleikar sem fæddu af sér Airwves
Árið 1998 urðu kaflaskil hjá hljómsveitinni þegar henni bauðst að koma fram á tímamótatónleikum í íslenskri tónlistarsögu. Þetta voru tónleikar sem Guðmundur Sesar heitinn Magnússon hélt á Akureyri og hafði honum tekist að fá til landsins útsendara erlendra útgáfurisa svo nokkuð sé til tekið.
Tónleikahaldið og allt sem því tengdist var mikil upplifun fyrir unga og óharðnaða tónlistarmenn. Þarna mynduðust tengsl sem á endanum fæddu af sér Iceland Airwaves hátíðina.

Hljómsveitin lognaðist út af
Ekki hlaut Carpet heimsfrægð að launum og lognaðist svo út af ekki mjög löngu síðar. Þrátt fyrir dauða Carpet hafa meðlimir sveitarinnar þó ekki sagt skilið við íslenska tónlistarsögu. Kristófer Jensson varð söngvari Lights On the Highway, Hallgrímur trommaði með Tenderfoot og núna Sólstöfum, Arnar spilaði á bassa í um 10 ár með Hljómsveitinni Ég. Egill hefur að mestu leyti leikið með ballhljómsveitum en gaf nýverið út sitt fyrsta sólóefni undir nafninu Sporfari. Eyþór er eini meðlimur Carpet sem lítið hefur fengist við tónlist undanfarin ár.

Boðin þátttaka 20 árum síðar
Það var því óvænt ánægja þegar hljómsveitinni var boðið að taka þátt á Airwaves 2018 í tilefni þess að 20 ár voru liðin síðan tónleikarnir frægu á Akureyri fóru fram.
Æfingar og tónleikar gengu vonum framar og var ákveðið að loka þessari löngu sögu með því að taka upp lag frá árdögum hljómsveitarinnar.
Lagið heitir Ocean og er eftir Eyþór Skúla Jóhannesson. Það varð fyrst til í bílskúr í Mosfellsbænum, sennilega ´92 eða ´93. Það hefur fylgt hljómsveitinni í gegnum tíðina.