Ætla að gefa restina af eggjunum

Í dag verður opið á Teigi í Mosfellsbæ milli kl. 14 og 16. Fyrstir koma fyrstir fá. Myndin er samsett.

Í ljósi aðstæðna hefur verið ákveðið að grípa til þess ráðs að gefa egg í Mosfellsbæ í dag. Hægt verður að næla sér í eggjabakka á Teigi þar sem Brúnegg voru til húsa.

„Við erum með 12.000 egg sem við annars þyrftum að farga. Í allri þessari umræðu um matarsóun fannst okkur ekki annað koma til greina en að koma eggjunum okkar í gagnið. Eggin eru í góðu standi og renna ekki út fyrr en í lok apríl. Við ætlum því að vera með opið á lagernum í dag, laugardag kl. 14-16 þar sem fólk getur náð sér í ókeypis eggjabakka,“ segja forsvarsmenn Brúneggja.

Tekið skal fram að afhentir verða hámark tveir stórir eggjabakkar á mann, meðan birgðir endast.

Eins og alþjóð veit fór fyrirtækið flatt eftir Kastljós-umfjöllunina fyrir jólin og situr því uppi með þennan mikla lager. „Við höfum verið hér í Mosfellsbæ í fjölda ára í sátt við Guð og menn og viljum því þakka fyrir í bili með þessu uppátæki í dag.“

 

Teigur er við Reykjaveg í Mosfellsbæ. Sjá kort hér að neðan…