20 ára afmælisár Hvíta Riddarans

godgerdarhviti

Íþróttafélagið Hvíti Riddarinn var stofnað þann 14. ágúst 1998. Upphaflega var einungis um knattspyrnulið að ræða en síðar bættust við fleiri íþróttagreinar.
„Upphafið má rekja til þessa að hópur af strákum og stelpum hittist reglulega á túninu við Reykjalund,“ segir Jóhann Benediktsson fyrsti formaður félagsins. Hópurinn taldi um 15-20 manns og var spilaður fótbolti á sumrin. Formleg stofnun fór svo ekki fram fyrr en tveimur árum síðar þegar liðið var skráð til leiks í firmakeppni á Tungubökkum sumarið 1998.
„Mikil ánægja var með þetta fyrsta mót okkar og var grunnurinn lagður. Nafn félagsins kom þannig til að við skrifuðum okkur í gestabækur golfklúbbsins undir nafni Hvíta Riddarans enda ekki í neinum golfklúbbi. Þetta byrjaði því sem brandari.“

Lið í fótbolta, handbolta og körfubolta
Liðið sóttist eftir því að komast í utandeildina í knattspyrnu og eftir neitun tvö ár í röð, vegna plássleysis, þá hafðist það árið 2001 þegar liðum var fjölgað í deildinni. Á næstu fjórum árum varð Hvíti Riddarinn tvisvar utandeildarmeistari, einu sinni í 2. sæti og einu sinni í því þriðja.
Árið 2005 hóf liðið leik í 3. deild KSÍ, sem síðar var breytt í 4. deild, og komst þó nokkrum sinnum í úrslitakeppnina.
Síðar hófst samstarf við Aftureldingu.
Hvíti Riddarinn/Afturelding hefur teflt fram sameiginlegu liði á Íslandsmóti 30 ára og eldri undanfarin ár og kom fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í hús í sumar í kringum 20 ára afmæli félagsins.
Í dag starfrækir Hvíti Riddarinn lið í karla og kvennaflokki í knattspyrnu auk 30+ í karlaflokki í fótbolta sem og liði í utandeildinni í handbolta. Í tvö ár var einnig starfrækt körfuboltalið.

Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans
Stofnað hefur verið Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans. Félagið hefur það að markmiði að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í bæjarfélaginu sem lent hafa í áföllum eða erfiðleikum.
Önnur úthlutun félagsins fór fram á dögunum þar sem fjölskyldu ofurhetjunnar Júlíu Rutar var afhent hálf milljón króna. Riddarar vilja senda baráttukveðjur til fjölskyldunnar en Júlía Rut, 4 ára, greindist með bráðahvítblæði fyrir um ári síðan.

___________________________________________________________________________
Mosfellingar eru hvattir til að ganga til lið við Góðgerðarfélag Hvíta Riddarans á Facebook og fylgast með.