Nýi leikskólinn fær nafnið Sumarhús

Í haust tekur til starfa nýr leikskóli í Vefarastræti í Helgafellslandi og hefur hann nú hlotið nafnið Sumarhús. Nafn skólans var valið á fundi fræðslunefndar eftir hugmyndaöflun frá bæjarbúum.
Sumarhús var ein af þeim hugmyndum sem oftast komu fyrir í hugmyndaleitinni og hefur sérstaka skírskotun til bókmennta Halldórs Laxness, eins virtasta rithöfundar þjóðarinnar og Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, eins og raunar hverfið allt.

Tilvísun í Bjart í Sumarhúsum
Segja má að nafnið Sumarhús fangi anda bernskunnar, náttúrunnar og menningarlegrar arfleifðar skáldsins. Það endurspeglar þá ró og gleði sem leikskóli á að standa fyrir og styrkir tengsl leikskólans við íslenska bókmennta- og menningararfleifð. Með tilvísun í Bjart í Sumarhúsum fær nafnið dýpri merkingu sem tengist baráttu, von og þeirri trú að framtíðin byggist á sterkri sjálfsmynd og góðum uppeldisaðstæðum.
Alls bárust hugmyndir að nafni frá um 170 manns og þökkum við bæjarbúum innilega fyrir áhugann og aðstoðina. Þeim aðilum sem stungu upp á þessu nafni verður boðið sérstaklega til veislu þegar leikskólinn Sumarhús verður vígður formlega.

Verið að ganga frá ráðningu skólastjóra
Vinna við húsið sjálft hefur gengið vel og er á áætlun. Uppsteypu og frágangi á ytra byrði hússins er að mestu lokið og er stefnt að því að framkvæmdum verði lokið í lok júní.
Verið er að ganga frá ráðningu leikskólastjóra sem mun veita Sumarhúsum forstöðu og taka, ásamt starfsfólki, á móti börnum í skólann í haust. Börn og starfsfólk leikskólans Hlaðhamra munu jafnframt fá að njóta Sumarhúsa á meðan verið er að skoða og meta ástandið á húsnæði Hlaðhamra.
Það er ekki á hverjum degi sem opnaður er nýr skóli í sveitarfélaginu en þetta verður glæsileg bygging sem á eftir að halda vel utan um börn og starfsfólk í leik og starfi til framtíðar.