Besta deildin hefst í kvöld
Laugardaginn 5. apríl mun karlalið Aftureldingar spila sinn fyrsta leik í sögunni í Bestu deildinni en liðið heimsækir þá Íslandsmeistara Breiðabliks á Kópavogsvöll klukkan 19.15.
Mikil spenna er fyrir fótboltasumrinu í Mosfellsbæ enda er um sögulegt tímabil að ræða hjá Aftureldingu.
„Strákarnir hafa æft gríðarlega vel í vetur og þjálfarateymið, sjálfboðaliðar í kringum liðið og allir sem að þessu standa hafa lagt mjög mikla vinnu á sig í vetur til að hægt verði að ná sem bestum árangri í sumar. Það er mikil gleði og liðsheild hjá okkur,“ segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
„Stemningin í hópnum er virkilega góð eins og hefur verið einkenni liðsins síðastliðin ár. Það ýtir undir spennuna og stemninguna í hópnum að vera loksins meðal þeirra bestu og við getum ekki beðið eftir að byrja mótið,“ segir Aron Elí Sævarsson fyrirliði liðsins.
Öflugur liðsstyrkur
Afturelding hélt fréttamannafund í Hlégarði í desember þar sem fjórir nýir leikmenn voru kynntir til sögunnar. Bræðurnir Axel og Jökull Andréssynir eru mættir alfarið á heimaslóðir eftir að hafa farið ungir í atvinnumennsku erlendis hjá Reading á Englandi.
Oliver Sigurjónsson, reynslumikill miðjumaður, kom til Aftureldingar frá Íslandsmeisturum Breiðabliks og kantmaðurinn Þórður Gunnar Hafþórsson bættist í hópinn frá Fylki.
„Allir þessir leikmenn hafa reynslu af því að spila á háu getustigi. Þetta eru karakterar sem bætast við mjög öfluga liðsheild hjá okkur og við erum með mjög öflugan og spennandi leikmannahóp fyrir tímabilið,“ segir Magnús Már.
Fleiri Mosfellingar en Blikar?
Í Bestu deild karla eru 12 lið og mætast öll liðin tvisvar áður en deildinni er skipt í efri og neðri hluta þar sem leiknir eru 5 aukaleikir. Tímabilinu lýkur því ekki fyrr en í lok október og stendur yfir í tæpa sjö mánuði.
„Þetta verður langt og skemmtilegt tímabil og við erum komnir til að vera. Við ætlum okkur að festa Aftureldingu í sessi í Bestu deildinni og vonumst til að fá góðan stuðning frá stuðningsmönnum okkar. Ég vonast til að stuðningurinn sem var í úrslitakeppninni í fyrra fylgi okkur inn í þetta tímabil og skora á Mosfellinga að mæta í Kópavoginn á laugardagskvöld.
Ég hef trú á að stuðningsmenn Aftureldingar geti verið fjölmennari en stuðningsmenn Breiðabliks á þessum opnunarleik Íslandsmótsins,“ segir Magnús Már.
Tveir heimaleikir í apríl
Afturelding mætir ÍBV í fyrsta heimaleik sumarsins sunnudaginn 13. apríl klukkan 17 á Malbikstöðinni að Varmá. Fimmtudaginn 24. apríl, á sumardaginn fyrsta, koma síðan Víkingar í heimsókn.
„Stuðningurinn skiptir algjörlega öllu máli. Stuðningsmenn liðsins eru ástæðan fyrir því að það er skemmtilegast að mæta á völlinn í Mosó. Liðið spilar með meiri orku og gleði þegar stuðningurinn er til staðar,“ segir Aron Elí.