Vertu breytingin sem þú vilt sjá

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Verandi fædd og uppalin í Mosfellsbæ verður óumflýjanlegt að þykja ekki nokkuð vænt um þessa sveit.
Ég var svo heppin að fá að vera alla tíð í sama leik- og grunnskóla, fá að blómstra í lúðrasveitinni og uppgötva tilvistarleysi íþróttahæfileika minna í þeim fjölmörgu greinum sem Afturelding býður upp á. Við fjölskyldan erum afar gæfurík með vinalega nágranna og fallegt umhverfi hvert sem litið er. Þetta eru sannarleg forréttindi.
Ókeypis er allt það sem er best. Að vissu leyti. Staðreyndin er að manneskjur um allan heim búa við raunverulegan ójöfnuð og það er okkar hlutverk að taka virkan þátt í að útrýma honum. Við þurfum ekki að leita út fyrir bæjarmörkin til að sjá að manneskjan­ næst okkur gæti þurft aðstoð.
Rauði Kross Íslands er mannúðarhreyfing sem miðar að því að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa. Sú hjálp er af ýmsum toga, allt frá félagslegum stuðningi og fataúthlutunum að beinni aðstoð á stríðssvæðum. Það er því eðlilegt að spyrja sig – hvað hef ég upp á að bjóða? Hvað get ég gert fyrir aðra?
Að gefa tíma er rausnarleg gjöf. Að taka þátt í opnu húsi, félagsstarfi með hælisleitendum, vera heimsóknavinur eða kenna íslensku sem annað tungumál. Fjölmörg og fjölbreytt verkefni standa til boða og ég vil hvetja þig, lesandi góður, til þess að kynna þér starfið og velta því fyrir þér hvert þitt framlag gæti orðið.

Signý Björg Laxdal, varaformaður
Mosfellsbæjardeildar Rauða Kross Ísland.