Verslunin Coral.is opnar í Kjarna

coral

Verslunin Coral.is opnaði nýverið í Kjarnanum þar sem Dýralæknirinn var áður til húsa. Verslunin hefur verið starfrækt síðan 2012 en aðallega sem netverslun.
„Ég hef verið eigandi Coral.is síðastliðið ár og hef eingöngu rekið búðina á netinu. Það hefur gengið rosalega vel en til að geta veitt viðskiptavinum betri þjónustu og í framtíðinni aukið vöruvalið þá ákvað ég að stíga þetta skref og opna verslun,“ segir Berglind Rich­ardsdóttir sem er mjög ánægð með viðtökurnar.

Mikið úrval af vönduðum vörum
Coral.is býður upp á mikið úrval af kvenfatnaði, snyrtivörum og skartgripum. „Ég er fyrst og fremst með netverslun og allar vörur er hægt að skoða og panta á netinu. En ég fann að það er ákveðinn hópur sem vill koma og máta og skoða vörurnar. Það er rúmur skilatími á öllum okkar vörum þannig að fólk þarf ekki að vera hrætt við að panta á netinu en það er ekkert mál að skila eða skipta vörum. Hér er góð aðstaða, húsnæðið rúmgott, góðir mátunarklefar og nóg af bílastæðum.“

Fastur opnunartími og eftir samkomulagi
„Við erum með fastan opnunartíma á miðvikudögum og fimmtudögum á milli klukkan 16 og 18. Svo samkvæmt samkomulagi en það er hægt að panta tíma til að koma og skoða, máta eða sækja pantanir þegar það hentar viðskiptavininum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð eftir opnunina og finn að Mosfellingar eru ánægðir með þessa viðbót í bæjarfélaginu,“ segir Berglind að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.