Vanda mig við að njóta hvers dags

elisabet_hreiðar

Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara segist lánsöm að eiga góða fjölskyldu og trausta vini. Hún segir það ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í lífi Elísabetar Sigurveigar Ólafsdóttur síðastliðin tvö ár. Hún missti eiginmann sinn úr heilakrabbameini eftir 14 mánaða veikindi og sex ára barnabarn hennar greindist með bráðahvítblæði á árinu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuárin á Vopnafirði, líflegan tíma á Hressingarskálanum, árin hjá Ríkissáttasemjara og veikindaferli eigin­mannsins.

Elísabet Sigurveig er fædd á Akureyri 9. júní 1955. Foreldrar hennar eru þau Þrúður Sigríður Björgvinsdóttir og Ólafur Pétursson en þau eru bæði látin. Þau hjónin voru lengst af bændur á Vopnafirði. Elísabet á hálfbróður, Sigurð Þór, fæddan 1938. Hann var bóndi á Vopnafirði en seldi jörðina og nýtur þess nú að ferðast um heiminn.

Hlakkaði til að fá borgarbörnin í sveitina
„Ég ólst upp á Vopnafirði þar sem veðrið er best á Íslandi á sumrin. Það var gott og áhyggjulaust að alast upp í sveitinni. Ég og bróðir minn ólumst ekki upp saman þannig að ég saknaði þess að eiga ekki systkini á svipuðum aldri. Ég hlakkaði mikið til á vorin þegar borgarbörnin komu til okkar í sveitina. Mér fannst alltaf skemmtilegast að vera úti og vinna með pabba. Elskaði hestana og kindurnar en mér fannst kýrnar alltaf­ frekar leiðinlegar.“

Vináttan dýrmætari með ári hverju
Elísabet var í heimavistarskóla á Torfastöðum og fór svo í gagnfræðaskóla Vopnafjarðar. „Mér fannst alltaf gaman í skólanum og stærðfræði var mitt uppáhaldsfag. Í dag er ég í félagi sem heitir „Skotveiðifélagið“ sem samanstendur af skólasystrum og vinkonum frá Vopnafirði. Við hittumst einu sinni í mánuði og vináttan verður dýrmætari með hverju árinu sem líður.
Ég tók landspróf í Reykholtsskóla sem var mikil upplifun og þaðan á ég marga góða vini.
Eins og margar stelpur í „gamla daga“ langaði mig til að verða búðarkona. Sá draumur rættist mörgum áratugum seinna þegar við vinkonurnar skelltum okkur í sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum. Við fengum að starfa í búðinni þeirra á Laugaveginum. Ég held svei mér þá að ég hefði getað orðið ágæt búðarkona,“ segir Elísabet og hlær.

Kenndi mér að gera gott úr hlutunum
„Það er mikil frændrækni í fjölskyldum mínum og það voru því mikil samskipti við ættingjana á Vopnafirði. Af öllu þessu góða fólki langar mig að nefna föðursystur mína, Sigríði, sem var einstök kona. Við vorum miklar vinkonur og töluðum oft saman en hún varð 100 ára.
Sigga var jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst, alltaf bjartsýn, en samt raunsæ. Hún kenndi mér, öðrum fremur, að sjá björtu hliðarnar og gera gott úr hlutunum þótt eitthvað bjátaði á.“

Hressó var aðalstaðurinn
„Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var 17 ára og fór að vinna á Hressingarskálanum í Austurstræti sem var þá aðalstaðurinn. Það var lærdómsríkt fyrir sveitastelpuna og margt sem kom mér á óvart.
Hjá Búnaðarfélagi Íslands var ég í nokkur ár en þaðan fór ég til Kjararannsóknarnefndar og þegar embætti ríkissáttasemjara var stofnað 1980 óskaði þáverandi ríkissáttasemjari eftir því að nefndin flytti aðsetur sitt í sama hús og sáttasemjaraembættið til að auðvelda samstarfið og það varð úr.“

Er ennþá sátt og sæl með starfið mitt
Árið 1982 bauð Guðlaugur Þorvaldsson, þáverandi ríkissáttasemjari, mér síðan starf skrifstofustjóra hjá embættinu. Ég ákvað að þiggja boðið en ætlaði aldrei að vera nema í nokkur ár. Ég var þá ófrísk að Evu minni og byrjaði að vinna þegar hún var þriggja mánaða. Nú er hún allt í einu orðin 35 ára og ég er ennþá sátt og sæl með starfið mitt.”
Elísabet á tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Jóni Arnari Guðmundssyni, en þau slitu samvistir árið 2000. Eva Hrönn er fædd 1982 og starfar sem hæstaréttarlögmaður og Stefán Óli er fæddur 1991 og er sagnfræðingur, fréttamaður og mastersnemi. Barnabörnin eru þrjú, þau Emilía Íris 9 ára, Viktor Óli 7 ára og Elísabet Eva sem er eins árs.

Honum leið vel í Mosó frá fyrsta degi
Í lok árs 2002 byrjuðu Elísabet og Hreiðar Örn Gestsson húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur að rugla saman reytum. Þau voru bæði í háskólanámi á þessum tíma, Hreiðar í viðskiptafræði og Elísabet í opinberri stjórnun og stjórnsýslu. Hreiðar átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Heið­rúnu fædda 1983, Davíð Örn fæddan 1989 og Ingvar Örn fæddan 1992. Elísabet og Hreiðar Örn gengu lífsleiðina saman í 15 ár en í apríl sl. lést Hreiðar eftir erfið veikindi.
„Hreiðar sagði oft söguna þannig að ég hefði flutt hann inn í Mosó en bætti svo við að honum hefði liðið vel hér frá fyrsta degi enda var hann opinn og fljótur að aðlagast samfélaginu. Hreiðar var einlægur, glaðlyndur og vinamargur, mikið náttúrubarn og ástríðufullur veiðimaður. Hann var líka einstaklega barngóður og öll börn elskuðu hann. Hann lék við þau, kenndi þeim og gaf þeim tíma sem er það mikilvægasta af öllu.
Við ferðuðumst mikið bæði innanlands sem utan. Fyrstu árin ferðuðumst við með strákana okkar þrjá og eitt sumarið vorum við 30 nætur í fellihýsinu.“

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Lagði áherslu á að njóta hvers dags
„Við lifðum skemmtilegu og innihaldsríku lífi, Hreiðar lagði alltaf mikla áherslu á að njóta hvers dags. Kannski hefur það viðhorf hans ráðist að einhverju leyti af því að pabbi hans fékk heilablóðfall þegar hann var 53 ára, lamaðist og missti málið.
Árleg ferð í Veiðivötn með fjölskyldu og vinum var hápunktur hvers sumars. Eftir þriggja daga veiði komu svo allir heim til okkar og við elduðum saman.
Við bjuggum nokkra mánuði í Danmörku veturinn 2006, þar sem ég var í skiptidvöl hjá danska ríkissáttasemjaraembættinu. Stefán Óli kom með okkur og var í fjarnámi frá Varmárskóla auk þess að vera í dönskum grunnskóla.“

Sjónvarpsþátturinn Hæðin
„Það örlagaríka ár 2008 tókum við þátt í sjónvarpsþættinum Hæðinni á Stöð 2. Verkefnið var að hanna og skipuleggja raðhús í Garðabæ og búa í húsinu á meðan. Við fluttum því í nokkra mánuði í Garðabæinn og helltum okkur í byggingabasl.
Þetta var mikil áskorun, nánast allt sem við gerðum var tekið upp. Þetta var skemmtilegt en reyndi stundum á þolinmæðina. Okkur gekk vel að vinna saman. En mikið var gott að flytja heim í Mosó aftur.
Þetta sama ár giftum við okkur og fórum í framhaldinu í brúðkaupsferð til Brasilíu.“

Áhugamálin margvísleg
„Áhugamál mín eru mörg, ferðalög bæði innanlands og utan, ég hef mikla ánægju af útivist og Hreiðar minn bætti við þá flóru með því að kenna mér að meta veiðar. Ég hef ánægju af þátttöku í félagsstarfi og hef starfað lengi með góðu sjálfstæðisfólki. Þegar Eva og Stefán voru yngri tók ég þátt í starfi Aftureldingar og Skátafélagsins Mosverja og var líka þátttakandi í starfi foreldrafélagsins í Varmárskóla.
Ég er líka í bókaklúbbi með skemmtilegum skátakonum og við hittumst reglulega. Ég er í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar og var önnur af tveimur fyrstu konunum sem gengu í klúbbinn. Um tíma starfaði ég líka með Lionsklúbbnum Úu.“

Var á bráðamóttökunni í marga daga
„Hreiðar átti sex systkini. Haustið 2014 dóu tveir bræður hans á besta aldri með fimm vikna millibili vegna hjartavandamála. Þetta var mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna og í framhaldinu fóru systkinin í rannsókn. Sem betur fer var niðurstaðan sú að þau voru ekki með hjartagalla.
Rúmu ári síðar, í febrúar 2016, veikist Hreiðar mikið, fékk krampaflog og var á bráðamóttökunni í marga daga. Fyrstu mánuðina vissum við ekki hver ástæðan var. Það var talið að þetta væri annað hvort vírus í heila, heilabólga eða æxli.“

Læknarnir ekki sammála
„Við vorum búin að skipuleggja fjölskylduferð til Flórída í mars og Hreiðar tók ekki annað í mál en við héldum okkar striki. Eftir að hafa fengið samþykki lækna og ítarlegt læknabréf á ensku fórum við í ferðina og vorum óendanlega þakklát fyrir að hafa gert það.
Áður en við fórum út sendum við vinkonu okkar, sem er yfirlæknir á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, niðurstöðu úr myndtökunum frá LSH. Þegar við komum heim lá niðurstaða hennar fyrir, að þetta væri krabbamein og hún og hennar teymi ráðlagði skurðaðgerð strax. Eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir tók við erfiður biðtími. Læknarnir á Landspítalanum voru ekki sammála þessari greiningu og vildu bíða í nokkra mánuði og sjá til.“

Boðaður í bráða heilaskurðaðgerð
„Í byrjun júní fengum við viðtal við heilaskurðlækni sem reyndi að sannfæra okkur um að það væri engin ástæða til að óttast, en til að róa okkur ákvað hann að senda Hreiðar í aðra myndatöku. Daginn eftir fékk Hreiðar svo símtal sem staðfesti niðurstöðu vinkonu okkar og var boðaður í bráða heilaskurðaðgerð. Þá hafði æxlið stækkað verulega og breyst í 4. stigs krabbamein. Ekki reyndist unnt að fjarlægja allt æxlið en tekið var eins mikið og læknarnir treystu sér til án þess að valda varanlegum alvarlegum skaða.
Þegar niðurstaða lá fyrir úr sýnatöku var hún mjög afdráttarlaus. Krabbameinið var ólæknandi og bráðdrepandi. Með það vorum við send heim og aldrei boðin nein aðstoð eða ráðgjöf til að vinna úr áfallinu.“

Þakka fyrir það sem ég hef
„Við ákváðum strax að segja fjölskyldu og vinum hvernig staðan væri og tala um krabbameinið. Það reyndi oft á, en við gátum ekki hugsað okkur að vera í einhverjum feluleik.
Næstu mánuði var Hreiðar bæði í lyfja- og geislameðferð, en í byrjun nóvember kom í ljós að æxlið var aftur farið að stækka og þá tók Hreiðar þá hugrökku ákvörðun að hætta í meðferðinni í þeirri von að honum liði betur. Hann sýndi aðdáunarvert æðruleysi í veikindum sínum.
Hann lést 6. apríl, 14 mánuðum eftir að veikindin gerðu fyrst vart við sig. Ég er óendanlega þakklát fyrir árin sem við áttum saman og er að vanda mig við að njóta hvers dags og þakka fyrir það sem ég hef.“

Ósanngirnispytturinn ekki langt undan
„Í janúar sl. greindist svo 6 ára gamall sonur Evu minnar með bráðahvítblæði og var strax settur í meðferð sem mun standa í tvö og hálft ár. Þetta varð okkur öllum mikið áfall og margar áleitnar spurningar sóttu á hugann. Ósanngirnispytturinn var ekki langt undan og stundum datt ég á bólakaf ofan í hann.
Með hjálp fjölskyldu og góðra vina tókum við á þessum breyttu aðstæðum. Gamli málshátturinn „Sá er vinur sem í raun reynist” öðlaðist nýja og dýpri merkingu því það er ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.
Ég er svo lánsöm að eiga allt þetta góða fólk að. Það er ómetanlegt að finna samúð og vináttu á svona erfiðum stundum og það verður seint fullþakkað.”

Mosfellingurinn 21. desember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs