Á vaktinni í yfir 30 ár

steinimaelo_mosfellingur

Þorsteinn, eða Steini mæló eins og hann er ávallt kallaður, byrjaði sem sumarstarfsmaður hjá Mosfellshreppi árið 1986, þá á síðasta ári í byggingatæknifræði. Það sumar starfaði hann við ýmis konar mælingar og eftirlit og hafði umsjón með ýmsum framkvæmdum. Hálfu ári síðar var hann fastráðinn og hefur starfað á umhverfissviði bæjarins síðan eða í 31 ár.
Í fyrra tók Steini við nýrri stöðu sem deildarstjóri eigna og veitna og hefur þar með umsjón með eignum bæjarins, þ.e.a.s. skólum og leikskólum, og sér um viðhaldsmál gatna og lagna.

Þorsteinn Sigvaldason er fæddur í Reykjavík 9. júní 1960. Foreldrar hans eru Ingibjörg Halldórsdóttir fyrrverandi dagmóðir og Sigvaldi Þorsteinsson lögfræðingur en hann lést árið 1998. Þorsteinn á fimm systkini, Elísabetu fædda 1948, Erlu fædda 1950, Sigrúnu fædda 1958, Boga fæddan 1962 og Dagbjörtu fædda 1969.

Fengum vinnu við að flokka timbur
„Við fjölskyldan bjuggum í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík og þar var mjög gott að alast upp. Fossvogurinn var á þessum tíma í mikilli uppbyggingu og fólk var að flytja inn í hálfkláruð húsin.
Það var mikið af krökkum í hverfinu og við félagarnir fórum í marga leiðangra á byggingarsvæðinu og fengum meðal annars vinnu við að flokka timbur í stærðir og fengum laun fyrir.
Ásgarðurinn var gerður að sleðabrekkum á veturna og gatan iðaði að lífi. Þegar Bústaðakirkja var í byggingu þá mættum við félagarnir iðulega til að hjálpa til eða kannski vorum við meira að þvælast fyrir,“segir Steini og brosir.

Íslandsmeistari í fótbolta
„Ég æfði fótbolta með Víkingi og afrekaði að verða Íslandsmeistari með 5. flokki árið 1972. Breiðagerðisskóli var okkar hverfisskóli til 12 ára aldurs en þá lá leiðin í Réttarholtsskóla þaðan sem ég lauk landsprófi 1974.
Eftir útskrift úr Réttó lá leiðin í Menntaskólann við Sund og ég útskrifast 1981. Ég man hvað það var gífurleg breyting að fara úr gagnfræðaskóla yfir í menntaskóla, miklu meiri breyting en maður átti von á.“

Kynntust í Sigtúni
„Eftir menntó tók ég mér eitt ár í námsleyfi og fór að vinna hjá múrarameistara við ýmis störf tengd byggingarvinnu, þó aðallega steypuvinnu. Ég hafði verið hjá honum í sumarvinnu frá 1978.
Einn sumardaginn eftir vinnu 1982 skellti ég mér í Sigtún þar sem ég kynntist lífsförunauti mínum, Kristínu Þórmundsdóttur geislafræðingi, og höfum við verið saman síðan. Við eigum þrjú börn, Berglindi Rut fædda 1985, Sigvalda fæddan 1988 og Hugrúnu fædda 1994. Barnabörnin eru fjögur, Tristan Ýmir, Thelma Katrín, Þór Magni og Lilja Kristín.“

Fékk viðurnefnið Steini mæló
„Um haustið 1982 hóf ég nám við Tækniskóla Íslands í byggingatæknifræði. Á þessum tíma bjuggum við Kristín hjá foreldrum hennar en fluttum svo í Kópavoginn árið 1986. Það sama ár fékk ég sumarvinnu hjá Mosfellshreppi en útskrifast úr skólanum í desember. Í framhaldi fékk ég svo fastráðningu hjá tæknideild Mosfellshrepps sem þá var staðsett í Hlégarði og hef starfað hjá umhverfissviði síðan.
Í fyrstu var ég mikið við mælingar, setja út hús og allt sem viðkom mælingum og fékk því viðurnefnið Steini Mæló.“

Ekki auðveld ákvörðun
„Starf mitt varð fljótlega viðameira og ég sá um ýmis verkefni tengd uppbyggingu bæjarfélagsins. Þegar ég hóf störf hjá hreppnum bjuggu hér um 3.600 manns en í dag er fjöldinn í bænum rúmlega 10.000. Starfið er mjög fjölbreytt og hefur maður komið nánast að öllu sem tæknimaður bæjarfélags kemur að.
Árið 1988 vorum við hjónin hvött af Jóni Ásbjörnssyni þáverandi bæjartæknifræðingi að fjárfesta í lóð í Reykjabyggð. Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur borgarbörnin en eftir nokkra rúnta í Mosfellssveitina var ákvörðunin tekin, við fórum að byggja og fluttum inn 1991. Ég verð ávallt þakklátur Jóni að hafa hvatt okkur í þetta.
Faðir minn aðstoðaði gífurlega við bygginguna, kom eftir sinn vinnutíma og var nánast á hverjum degi að hjálpa stráknum að koma þaki yfir höfuðið.“

Sumarbústaðaferð á hverju ári
„Þegar börnin voru lítil var mikið farið í ferðalög og reyndum við að fara á hverju ári í vikutíma í sumarbústað og þær minningar eru djúpar í hugum fjölskyldumeðlima.
Ég tók einnig þátt í félagsstarfi með Aftureldingu, var í stjórn frjálsíþróttadeildar og handknattleiksdeildar og upplifði árin 1999 og 2000 þar sem Afturelding var á toppnum og vann allt sem hægt var að vinna.
Árið 2005 fór ég að hafa mikinn áhuga á veiði og við félagarnir förum í fjórar veiðiferðir á hverju ári. Síðastliðin 12 ár höfum við alltaf byrjað veiðisumarið á fjölskylduferð í Vatnsdalsá, síðan taka Veiðivötnin við, Þingvallavatn og tvær laxveiðiferðir.“

Margt dreif á dagana á þessum árum
„Árið 2000 tók ég við sem forstöðumaður Áhaldahússins en eftir sem áður var ég með ýmis verkefni tengd uppbyggingu bæjarins, nýrra hverfa og umsjón með nýbyggingum.
Margt dreif á dagana, mikil flóð sem gengu yfir bæinn og ollu töluverðum tjónum og eins var snjóþungt, sérstaklega árið 2000 þar sem allur febrúar var nánast undirlagður og mikil ófærð. Á þeim árum var tækjakostur allt annar en hann er í dag og kröfur samfélagsins öðruvísi.
Í fyrra tók ég við nýrri stöðu, deildarstjóri eigna og veitna, og hef í dag umsjón með eignum bæjarins, þ.e.a.s. skólum og leikskólum, og sé einnig um viðhaldsmál gatna og lagna.“

Miklar breytingar á starfsumhverfi
Á þeim tíma sem Steini hefur unnið hjá bænum hafa fimm bæjarstjórar verið að störfum. Þegar hann byrjaði var Páll Guðjónsson bæjarstjóri en á eftir honum komu Róbert B. Agnarsson, Jóhann Sigurjónsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Haraldur Sverrisson sem er starfandi bæjarstjóri í dag.
Steini hefur komið nánast að allri gatnagerð í Mosfellsbæ að undanskildu Helgafells- og Leirvogstunguhverfi en þau verkefni fóru í einkaframkvæmd. Hann hefur einnig komið meira og minna að öllum opinberum nýbyggingum í bænum.
„Á þessum árum hafa verið miklar breytingar á starfsumhverfi, bæði það að undirbúningur framkvæmda er orðinn töluvert lengri vegna breyttra reglugerða og lagaumhverfis og svo hafa miklar tækniframfarir orðið eins og fólk þekkir.“
Ég spyr Steina hvort hann sé alltaf á vaktinni? „Já, það má segja það, ég hef verið nánast á vaktinni fyrir bæinn í 31 ár og svarað símtölum á öllum tímum sólarhrings ef eitthvað hefur komið upp á.“ Með þeim orðum kvöddumst við og Steini rauk af stað á fund enda alltaf nóg að gera.

Mosfellingurinn 5. apríl 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs