Ungmennahús Mosfellsbæjar opnar í Framhaldsskólanum

Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Hluti af nýju húsráði Ungmennahússins: Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Ungmennahús Mosfellsbæjar hefur verið opnað í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Þar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára að hittast og byggja upp öflugt og fjölbreytt félagsstarf.
Markmið Ungmennahússins eru meðal annars að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Bjóða upp á heilbrigðan og vímuefnalausan valkost til afþreyingar ásamt því að opna á tækifæri fyrir ungt fólk fyrir Evrópusamstarf.

Fundir aðra hverja viku
Nú þegar hefur verið stofnað húsráð sem hefur fjölbreytt hlutverk. Sem dæmi má nefna skipulagningu opnunartíma, umsjón viðburða ásamt því að hvetja ungt fólk til áhrifa í Mosfellsbæ.
Húsráðið er opið fyrir alla og fundar aðra hverja viku og eru fundir auglýstir á facebook-síðu Ungmennahússins. Allir sem hafa áhuga á að taka þátt í að móta og hafa áhrif á hvað er gert fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ eru hvattir til að mæta.

Lasertag og hamborgarar
Fyrsti viðburður Ungmennahússins verður þann 4. október klukkan 18:00 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Farið verður í lasertag og síðan verða grillaðir hamborgarar. Ef þú ert á aldrinum 16-25 og vilt vera með í að móta starfsemina þá hvetjum við þig til að mæta á þennan fyrsta viðburð þér að kostnaðarlausu.

SAMKEPPNI
Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um nafn og lógó fyrir Ungmennahúsið. Allar hugmyndir og tillögur sendist á hrafnhildurg@mos.is.