Umhverfisviðurkenningar – nýjar reglur

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Undanfarin ár hefur Mosfellsbær veitt viðurkenningar til þeirra sem hafa skarað fram úr við að gera bæinn okkar enn fallegri. Þær hafa verið veittar í þremur flokkum: fallegasti húsagarðurinn, snyrtilegasta íbúagatan og fyrirtæki eða stofnanir sem hafa skapað fagurt og snyrtilegt umhverfi.
Þessi skipting er að sumu leyti barn síns tíma því sífellt fleiri láta sig fallegt og heilnæmt umhverfi varða með fjölbreyttum hætti, bæði einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og fleiri. Þess vegna hefur verið gerð breyting á þeim ramma sem gildir um umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar.

Nýjar reglur
Á fundi sínum 9. júní sl. samþykkti umhverfisnefnd Mosfellsbæjar eftirfarandi reglur: ,,Umhverfisnefnd samþykkir að breyta reglum um umhverfisviðurkenningar á þann veg að núverandi flokkaskipting verði afnumin. Þess í stað verði veittar viðurkenningar í einum opnum flokki. Innan hans rúmast m.a. íbúagötur, húsagarðar, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklingar. Veittar verði að hámarki 5 viðurkenningar á sérhverju ári.“ Með þessum breytingum er ætlunin að ná til breiðari hóps; allir sem hafa látið sig umhverfismál og fegrun bæjarins varða með einum eða öðrum hætti koma til greina.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Tilnefningar frá bæjarbúum
Vert er að vekja athygli á því að allir bæjarbúar geta lagt fram ábendingar/tilnefningar um þá sem þeir telja að eigi þessar viðurkenningar skilið, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir eða einhverja aðra. Hægt er að senda tilnefningar rafrænt á heimasíðu Mosfellsbæjar eða með tölvupósti á netfangið mos@mos.is. Með þessu móti skapast lýðræðislegur farvegur fyrir hinn almenna bæjarbúa til að taka þátt í því ferli sem framundan er og skulu tilnefningarnar berast fyrir 1. ágúst 2016.

Í túninu heima
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar verða sem fyrr afhentar í sumarlok, á bæjarhátíðinni Í túnina heima. Nafn þessarar vinsælu hátíðar er sótt í bókartitil eftir Halldór Laxness en þetta heiti má túlka á ýmsa vegu. Það er einmitt í túninu heima hjá okkur sjálfum sem bestu breytingarnar hefjast. Sérhvert okkar getur fundið farveg og verkefni til að stuðla að umhverfisvænni veröld og lagt um leið lóð á vogarskálarnar í þessum mikilvæga málaflokki.

Gleðilegt umhverfissumar!

Bjarki Bjarnason, formaður
umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Örn Jónasson, varaformaður.