Um áramót

Haraldur Sverrisson

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Kæru Mosfellingar!
Um áramót er hefðbundið að líta yfir farinn veg og leggja mat á það hvernig okkur tókst til, læra af því sem kann að hafa farið miður um leið og við setjum okkur markmið eða veltum fyrir okkur hvað kann að bíða okkar á nýju ári.

Í það heila tekið reyndist árið 2019 gott ár fyrir íslenskt samfélag en hægst hefur á hraða þess uppgangs sem ríkt hefur undanfarin ár. Horfurnar fyrir okkur eru sem fyrr bjartar og strax á nýrunnu ári má búast við nettum hagvexti gangi hagvaxtarspár eftir. Hóflegur hagvöxtur er mikilvægur til þess að unnt sé að sækja fram í hvaða starfsemi sem er. Þegar um er að ræða sveitarfélag í miklum vexti er nauðsynlegt að festa sé til staðar í efnahagsumhverfinu svo unnt sé að mæta þörfum íbúa fyrir þjónustu og sinna uppbyggingu innviða af myndarbrag.

Á árinu 2019 voru gerðir skynsamlegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem nefndir hafa verið lífskjarasamningar. Þessir samningar eiga mestan þátt í því að hagsveiflan er eins mjúk og raun ber vitni. Nú stendur fyrir dyrum að ljúka kjarasamningum á opinberum markaði og mikilvægt er að þar takist einnig vel til.

Í Mosfellsbæ hefur okkur vegnað vel enda á sér hér stað mikil uppbygging á íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, íþróttamannvirkjum, skólum og umferðarmannvirkjum. Þá fjölgar íbúum látlaust og viðhorfskannanir síðustu ára hafa sýnt að íbúar í Mosfellsbæ eru ánægðir með þjónustu bæjarins og þeim þykir mjög vænt um sitt samfélag. Að mínu mati fléttast þar saman sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir og það góða samfélag sem íbúar þess skapa á hverjum degi.
Annar mælikvarði á væntumþykju og umhyggju Mosfellinga fyrir bænum sínum er sú staðreynd að við settum Íslandsmet í kosningaþátttöku í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019 þar sem 19,1% íbúa tók þátt í samráði íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda og viðhaldsverkefna.

Mikill uppgangur í Mosfellsbæ
Mosfellingar urðu 12.000 talsins í lok ársins og hefur fjölgað um 8% á ári undanfarin ár. Það er mikil fjölgun og í raun fordæmalaus og sýnir hversu vinsælt sveitarfélagið er til búsetu. Nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í notkun á haustmánuðum. Húsið er um 4.000 fermetrar að stærð og verður án efa bylting fyrir íþróttaiðkun í bænum, einkum knattspyrnuna.
Fleira var gert í uppbyggingu íþróttamannvirkja á árinu 2019. Ný stúka var tekin í notkun við gervigrasvöllinn í vor og skipt var um gólfefni á öllum sölum íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá. Bráðlega verður tekin í notkun viðbygging við íþróttamiðstöðina Lágafell sem mun hýsa heilsuræktaraðstöðu fyrir íbúa.
Miklar viðhaldsframkvæmdir áttu einnig sér stað á húsnæði bæjarins á síðasta ári og ber þar hæst endurbætur og viðhald á Varmárskóla í tengslum við endurnýjun á ytra byrði yngri deildar og viðhald vegna rakaskemmda á húsnæðinu.

Mig langar til að benda á nokkur atriði í fjárhagsáætlun næsta árs sem bæði ungir og aldnir njóta góðs af. Þar er gert ráð fyrir að leikskólagjöld lækki um 5% og að álagningahlutfall fasteignagjalda lækki til að koma til móts við hækkandi fasteignamat. Í byrjun árs lýkur vinnu við endurskoðun á menningarstefnu bæjarins með áherslu á starfsemi Hlégarðs okkar sögufræga félagsheimils.
Þá stendur mótun lýðheilsu- og fornvarnarstefnu yfir og senn verður hafist handa við að endurskoða skólastefnu Mosfellsbæjar. Mikilvægt er að stefna, markmið og aðgerðir Mosfellsbæjar í öllum málaflokkum hafi tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna enda mun meginhluti þeirra koma til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að komið verði á fót 25 nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða gömul börn og það styttist í að öll börn 12 mánaða og eldri eigi tryggt úrræði á vegum Mosfellsbæjar. Á sviði velferðarmála eru lagðir til auknir fjármunir til málefna fatlaðs fólks.
Þá verður á árinu lögð áhersla á félagslega ráðgjöf og stuðning í anda breytinga á lögum um félagsþjónustu. Loks stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins og er miðað við að þeirri vinnu ljúki fyrir lok kjörtímabilsins.
Það er okkur Mosfellingum sem fyrr fagnaðarefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er í miklum blóma og kraftur og umhyggja einkennir samfélagið okkar.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru hvað varðar það sem gerst hefur í Mosfellsbæ á síðasta ári, og hvað fram undan er en það verður ekki allt talið upp hér.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir.
Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2019 og megi nýrunnið ár vera okkur gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri