Tvöföldunin tilbúin

Framkvæmdum við tvöföldun Vesturlandsvegar á kaflanum milli Skarhólabrautar og Langatanga lauk nú fyrir jól.
Um er að mikilvæga framkvæmd fyrir Mosfellinga og landsmenn alla þar sem oft hafa myndast raðir í og úr bænum á annatímum. Hluti framkvæmdarinnar er jafnframt auknar hljóðvarnir í formi nýrra hljóðveggja, stærri hljóðmana og biðstöð strætisvagna norðan vegarins.

Öflugri lýsing og betri hljóðvist
Vegfarendur hafa væntanlega tekið eftir því að lýsingin á veginum er öflugri en áður en um LED-lýsingu er að ræða sem gefur betri birtu fyrir vegfarendur og jafnframt ættu íbúar í aðliggjandi hverfum að hafa tekið eftir betri hljóðvist en áður. Í vor lýkur svo endanlegum frágangi á gróðri auk timburklæðningar á hluta hljóðveggja sem mýkir ásýnd þeirra.