Tölum um ferðaþjónustuna

Grímur Sæmundsen

Grímur Sæmundsen

Vart hefur fjölgun innlendra sem erlendra ferðamanna farið fram hjá nokkrum íbúa Mosfellsbæjar frekar en í öðrum bæjarfélögum.
Verslun og viðskipti hafa aukist svo um munar, í matvöruverslunum og eldsneytisstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Gististaðir og afþreying hvers konar dafna vel í sveitarfélaginu eins og svo mörgum öðrum um allt land. Enda fara ferðamennirnir víða og skila tekjum og lífga uppá bæjarbrag.

Stóraukinn fjöldi erlendra ferðamanna hefur svo sannarlega skilað miklu í þjóðarbúið. Gjaldeyristekjur eru áætlaðar á þessu ári um 440 milljarðar króna og er gert ráð fyrir að greinin skili um 70 milljörðum beint í ríkissjóð í formi skatta og gjalda á þessu ári. Atvinnuleysi er víðast hvar horfið vegna uppgangs ferðaþjónustunnar og meirihluti allra fjárfestinga í byggingastarfsemi tengjast atvinnugreininni.

Ríkið dregur lappirnar
Ferðaþjónustan hefur brugðist hratt við til að taka á móti sívaxandi straumi ferðamanna. Þannig hefur atvinnuvegauppbyggingin verið með mesta móti en fjárfestingar í gistirýmum, bílaleigubílum, flugvélum og öðru tengdu ferðaþjónustu vega nú um 20% af allri atvinnuvegafjárfestingu í landinu.

Helga Árnadóttir

Helga Árnadóttir

Það sama verður því miður ekki sagt um fjárfestingu eða uppbyggingu á vegum ríkisins. Óverulegum fjármunum er varið til að mæta auknu álagi vegna ferðamanna. Sem dæmi má nefna að 60 ár eru síðan jafn lágu hlutfalli af landsframleiðslu hefur verið varið til vegakerfisins. Úrbætur á vinsælum ferðamannastöðum tefjast árum saman. Þá sárvantar mörg sveitafélög tekjustofna til að mæta auknum umsvifum, bæði til fjárfestinga og rekstrar.

Úrlausnarefnin blasa við um allt land og það er ekki síst á valdi Alþingis – fjárveitingavaldsins – að taka til hendinni. Um er að ræða almannagæði sem heyra undir hið opinbera og nægar eru tekjurnar til að ráðast í brýnar úrbætur sem þola enga bið. Tækifærin mega ekki fara forgörðum.

Fundur í Mosfellsbæ 10. október
Í aðdraganda þingkosninga verða Samtök ferðaþjónustunnar með opna fundi í öllum kjördæmum með oddvitum stjórnmálaflokkanna til að fara yfir stöðuna.
Málefni Mosfellsbæjar og annarra sveitarfélaga í Suðvesturkjördæmi verða tekin fyrir á fyrsta fundinum í þessari fundaröð, en hann verður haldinn í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar þann 10. október næstkomandi kl. 20.

Umræðuefnið er staða ferðaþjónustunnar almennt og sérstaklega í Suðvesturkjördæmi og hvaða hugmyndir oddvitar flokkanna hafa um að tryggja eðlilegan vöxt og viðgang atvinnugreinarinnar í sátt við land og þjóð. Ætla þeir að sitja hjá eða bretta upp ermar? Allir eru velkomnir og það verður heitt á könnunni.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar