Tíu þúsundasti Mosfellingurinn

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Daðey Albertsdóttir, Tómas Guðmundsson og óskírður Tómasson.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Daðey Albertsdóttir, drengur Tómasson og Tómas Guðmundsson.

Mosfellingar eru nú orðnir 10.000 talsins og var það ung og stækkandi fjölskylda sem flutti í Skeljatanga sem kom Mosfellsbæ yfir þennan tímamótaáfanga.
Daðey Albertsdóttir og Tómas Guðmundsson fluttu í Mosfellsbæ í síðasta mánuði og eiga þriggja vikna óskírðan dreng.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ í byrjun maí en Daðey kemur úr Árbænum en Tómas úr Dalasýslunni.
„Okkur langaði að komast á stað þar sem stutt er í náttúruna en við erum einnig með hund á heimilinu. Eitt af skilyrðunum var líka að við yrðum í göngufæri í sundlaug.“

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri færði fjölskyldunni blóm og gjafir í tilefni þessa merka áfanga en íbúafjöldi Mosfellsbæjar fer ört vaxandi og hefur tvöfaldast á síðastliðnum 20 árum. Þann 9. ágúst næstkomandi verða svo liðin 30 ár frá því Mosfellsbær fékk kaupstaðarréttindi. Árið 1987 var nafni sveitarfélagsins breytt úr Mosfellssveit í Mosfellsbæ. Íbúar á þeim tíma voru um 3.900 talsins. Í dag eru íbúar orðnir 10.000 talsins og er Mosfellsbær sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Haldið verður upp á afmælið í ágúst með fjölbreyttri dagskrá frá 9. ágúst og fram yfir bæjarhátíðina Í túninu heima sem fram fer í lok ágúst.