Tilboð! Afsláttur! Lækkun!

Óskar Guðmundsson

Óskar Guðmundsson

Við lifum góðæristíma.
Góðærinu er þó misskipt og lítt fer fyrir því að lagt sé í félagsleg verkefni þegar svo vel árar.
Okkur er þess í stað tjáð að fram undan sé svo bjart að við eigum að fá „lækkun“ en ekki það sem raunin er … „afsláttur“ af hækkun.
Hér er viðtekna módelið að ef ég boða 20% hækkun en hækka svo „bara“ um 10% hafi ég lækkað eitthvað um 10%, jafnvel 50%. Til að koma þessu á skiljanlegt form getur verið gott að fjarlægja „%“ og setja í staðin orðið „hnefahögg“.
Mosfellsbær hefur undanfarin misseri grætt vel á að geta selt lóðir meðan að þéttingastefna Reykjavíkurborgar hefur keyrt lóðaverð á SV-horninu uppúr öllu valdi. Uppkeyrt lóðaverð og uppkeyrt íbúðaverð kemur með uppkeyrð fasteignagjöld hvers grunnur skapar nú rými fyrir „tilboð, afslátt, lækkun“.
Hér í bæ er verið að taka fullan þátt í því sem hefur hækkað húsnæði hvað mest á landsvísu og haldið uppi verðbólgu á tímum sem hefðu átt að vera tímar eðlilegrar verðhjöðnunar. Skortstefna lóða hefur gríðarleg áhrif enda hefur verð lóða farið á einum áratug úr því að vera 5-6% byggingakostnaðar og upp í 25%. Fjármögnunarkostnaður lóða er hærri en fasteigna og eru áhrifin á verðmyndun íbúða því enn meiri. N.B. að svo virðist vera að bæta eigi við innviðagjaldi til að hækka lóðaverð verulega í viðbót og koma lóðaverðinu í 30-33% byggingakostnaðar og þar með 35-40% endanlegs verðs.
Raunin er að við gjaldendur og nýir Mosfellingar hefðu grætt mest á því að lóðir/íbúðir hefðu verið ódýrari og hækkun íbúðaverðs sem og fasteignagjalda þá minni, verðbólga minni, kaupmáttur meiri.
Ekki verður séð að stefnan hafi breyst m.v. að þær 105 íbúðir sem rísa munu við Háholt/Bjarkarholt verða ekki á vegum félags án hagnaðarsjónarmiða líkt og Bjargs íbúðafélags heldur þvert í hina áttina enda verða íbúðirnar á vegum eins þess aðila sem borið hefur uppi verðbólgu síðastliðinna ára með gegndarlausum hækkunum á leiguverði.
Það að „fleyta rjómann“ með slíkum hætti er mjög hættulegt þar sem slíkt kerfi gerir ekki ráð fyrir stöðnun, hvað þá niðursveiflu en þegar að slíkar koma þarf oftar en ekki að grípa niðurskurðarhnífinn og beita á stærsta kostnaðarliðinn … skólana.
Endanlega eru sveitarfélögin á villigötum. Þau hafa tekið við verkefnum frá ríkinu án nauðsynlegs fjármagns eða að ríkið hefur breytt eða aukið kröfurnar eftir á svo að sveitin þarf nú að leita auka fjármögnunar. Útsvar er á flestum stöðum í botni og þá aðeins eitt til ráða … eignasala.
Mest fæst fyrir það sem takmarkað framboð er af og hafa sveitarfélögin því mörg hver valdið lóðaskorti, keyrt upp verðið en um leið íbúðaverð og verðbólgu. Nákvæmlega þetta er það sem veldur því að hér vex nú úr grasi kynslóð sem verður bráð gamma enda munu þau aldrei geta fjármagnað eigin íbúðakaup enda hækkar verðið hraðar og meira en sparnaðurinn.

Óskar Guðmundsson
Greinarhöfundur er formaður
Framsóknarfélags Mosfellsbæjar