Til hamingju Afturelding! Til hamingju Mosfellsbær!

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar

Stúkan á gervigrasvellinum var þétt setin á öllum leikjum í sumar.

Hanna Símonardóttir

Hanna Símonardóttir

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu náði þeim frábæra árangri um helgina að sigra í 2. deildinni og þar með tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni 2019. Stelpurnar héldu sér í Inkasso í ár og 3. flokkur karla varð Íslandsmeistari á dögunum.
Eftir uppskeru sem þessa er heldur betur ástæða til að líta um öxl og velta síðustu áratugum í starfi knattspyrnudeildar aðeins fyrir sér. Hjá mér er einkum tvennt sem kemur upp í hugann:
Annars vegar er það hversu magnað starf er unnið af þó allt of fáum sjálfboðaliðum í þágu allra bæjarbúa, og hins vegar er það aðstaðan sem starfið býr við.

Aðstaða 1960 og 2018
Árið 1959 þegar malarvöllur var vígður var íbúafjöldi í Mosfellssveit liðlega 700 manns. Knattspyrnuiðkendur höfðu þá sambærilega aðstöðu og þá sem best þótti á þeim tíma; malarvöll í fullri stærð.
Árið 2018 þegar íbúafjöldi er kominn yfir 11.000 er aðstaðan sem boðið er upp á til knattspyrnuiðkunar einn gervigrasvöllur. Breytingin hjá félögum almennt frá 1970 er að gervigras hefur leyst malarvelli af hólmi.
Staðreyndin sem við búum við í okkar ágæta Mosfellsbæ er því að einn knattspyrnuvöllur árið 1960 þjónaði um 700 íbúum en í dag yfir 11.000 íbúum.
Knattspyrnuiðkendur í Mosfellsbæ í dag eru um 600 talsins. Dag eftir dag eru yfir 130 börn á æfingu á þessum eina velli okkar á sama tíma. Það gefur auga leið að plássleysið á þeim æfingum er gríðarlegt. Ef einn af flokkunum á mótsleiki þá falla æfingar niður hjá allt að 250 iðkendum þann daginn.
Gervigrasið ætti að vísu ekki að vera svona þétt setið nema níu mánuði á ári því á sumrin höfum við Tungubakkana líka. Þeir þóttu á árum áður hinir myndarlegustu vellir, en staðreyndin er sú að fæstir flokkar innan knattspyrnudeildar Aftureldingar vilja æfa þar lengur á sumrin, heldur berjast um æfingatíma á gervigrasinu.
Nánast ekkert hefur verið gert í viðhaldi valla á Tungubökkum síðustu áratugi og eru þeir orðnir svo ósléttir að gæði æfinga jafnast á við gæðin fyrir 50 árum á megninu af svæðinu. Ef iðkendum fjölgar áfram eins og verið hefur má búast við að takmarka þurfi aðgengi barna að knattspyrnuæfingum vegna skorts á æfingaaðstöðu, það yrði nú saga til næsta bæjar ef sú staða kæmi upp í heilsueflandi bænum Mosfellsbæ.

Fögur fyrirheit en fátt um efndir
Hversu oft hef ég, sjálfboðaliði til yfir 20 ára, farið vongóð heim af fundum höldnum af Aftureldingu og/eða Mosfellsbæ varðandi úrbætur í aðstöðumálum? Ég hef ekki tölu á þeim en finnst lítið sem ekkert hafa áunnist þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Aðstöðuleysið, sem er óumdeilanlegt, hefur þau áhrif að erfiðara er að fá sjálfboðaliða til að taka að sér verkefni þar sem enginn hlutur á sér samastað. Slegist er um hvern krók og kima til allra hluta bæði tengdum æfingum og félagsstarfi. Ætli vangaveltur um aðstöðuleysi í klefa- og félagsmálum sé ekki efni í næstu grein hjá mér hér í Mosfellingi? Í þessari umræðu má þó ekki gleyma því að starfsfólkið í íþróttamiðstöðvunum og á skrifstofu Aftureldingar á hrós skilið fyrir að vera ávallt boðið og búið til að aðstoða.
Lokaniðurstaðan eftir samanburð á vallaraðstöðu 1960 og í dag er sú að einn völlur sem dugði 700 íbúum til knattspyrnuiðkunar þá, á að duga fyrir rúmlega 11.000 íbúa í dag. Er ekki eitthvað bogið við það?
Gleðilegt komandi Inkasso-sumar, vonandi í bættri aðstöðu.

Hanna Sím. – sjálfboðaliði í rúm 20 ár.