Það féllu tár þegar ég kvaddi hann

Reynir Örn Pálmason og hestur hans Greifi frá Holtsmúla urðu heimsmeistarar í fimmgangsgreinum á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Danmörku

Íslendingar unnu til fernra gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna í fullorðinsflokki á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í ágúst í Herning í Danmörku en keppendur voru frá fjórtán löndum.
Einn keppendanna, Reynir Örn og hestur hans, Greifi frá Holtsmúla urðu heimsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum en þann titil hlýtur sá keppandi sem reynist vera með hæstu meðaleinkunn úr forkeppni í fimmgangi, slaktaumatölti og skeiðgrein.

Reynir Örn er fæddur í Reykjavík 17. apríl­ 1971. Foreldrar hans eru þau Jóna Hulda Helgadóttir sjúkraliði og Pálmi Þór Vilbergs húsasmíðameistari. Systkini Reynis eru þau Viðar Þór og María.

„Það var bara yndislegt að alast upp í Mosfellssveit, við fluttum hingað árið 1976 og ég á bara góðar minningar frá æskuárunum. Það voru nýbyggingar út um allt, fullt af timbri og öðru dóti til að byggja kofa og fleka. Maður var stanslaust úti í einhverjum leikjum eða að gera dyraat,” segir Reynir Örn og glottir.
Ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos, við félagarnir fórum oft gangandi í hesthús foreldra minna eftir skóla og héngum þar en fórum svo ríðandi heim með skóladótið sem var mjög þægilegt því þá voru Arnartangi og Brekkutangi ystu göturnar í hverfinu.
Ég æfði fótbolta, handbolta og badminton á þessum tíma en svo tók hestamennskan alveg yfir.“

Útskrifaðist sem blikksmiður
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum tóku við nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fara í menntaskóla en þær einkenndust mest af skrópi og hesthúsaferðum ásamt því að starfa á hinum og þessum stöðum.
Ég var svo atvinnulaus um tíma og ákvað að setja inn auglýsingu í Dagblaðið og óskaði eftir vinnu í þrjá mánuði því ég ætlaði mér aftur í skóla og bara læra eitthvað. Tveir svöruðu auglýsingunni, hamborgarastaður í Ármúla og Blikksmiðja í Kópavogi sem varð fyrir valinu. Ég lærði blikksmíði og útskrifaðist úr Iðnskólanum í Reykjavík 1994 en hef aldrei starfað við fagið því strax eftir útskrift bað ég um ársfrí og það frí stendur enn.“

Dvölin stóð yfir í átta ár
„Ég ákvað að fara í búfræði- og tamninganám að Hólum í Hjaltadal og áður en námi mínu lauk þar var mér boðið að fara til Svíþjóðar að þjálfa hesta í þrjá mánuði. Ég þáði boðið og fór út haustið 1996 eða strax eftir útskrift. Dvölin ytra ílengdist til muna því hún stóð yfir í átta ár eða til 2004 þá ákvað ég að drífa mig aftur á Hóla og klára reiðkennaranám.“

Draumur minn var að komast í sveit
„Eftir dvölina á Hólum flutti ég í Mosfells­bæinn og starfaði við reiðkennslu ásamt þjálfun hrossa. Reiðkennslan fór að mestu leyti fram erlendis og ég var að fara allt upp í 20 ferðir á ári, mest til Finnlands og Svíþjóðar. Það kom síðan að þeim tímapunkti að mér fannst orðið þreytandi að fara svona á milli, draumur minn var að komast í sveit.“

Hrossaræktarbúið Margrétarhof
„Ég hélt alltaf góðu sambandi við fjölskylduna sem ég vann hjá í Svíþjóð. Þeirra draumur var að eignast jörð á Íslandi og árið 2010 kom draumajörðin, Krókur í Ásahreppi, á sölu og þau keyptu hana. Strax var hafist handa við uppbyggingu og er þetta nú eitthvert glæsilegasta hrossaræktarbú á landinu með hesthús fyrir um 50 hross, reiðhöll með kennsluaðstöðu og gistirými fyrir gesti og gangandi, allt til mikillar fyrirmyndar.
Á búinu eru ræktuð hross undir ræktunar­nafninu Margrétarhof en nafnið vísar til ræktunar sem eigendurnir stunda á búgarði sínum í Svíþjóð.
Ég starfa sem bústjóri á þessu búi og lífið snýst um hesta. Við rekum alhliða þjálfunar­miðstöð, bjóðum upp á kennslu, bæði helgarnámskeið og einkatíma, ásamt því að hafa ávallt vel tamin hross til sölu. Mikill tími fer í keppnir og nánast um hverja helgi er eitthvað um að vera.”

Eiga von á barni í október
Unnusta Reynis er Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir reiðkennari en þau eiga von á barni í október. Reynir á tvo syni frá fyrra sambandi, þá Arnar Frey viðskiptafræðing hjá WOW Air og Eið Örn sem er nemi.

Þetta er mikil upplifun
Reynir Örn er alinn upp í Hestamannafélaginu Herði og hefur starfað þar sem reiðkennari og sinnt félagsstörfum. Hann hefur verið valinn íþróttamaður Harðar sjö sinnum og er góð fyrirmynd ungu kynslóðarinnar.
Í sumar keppti hann á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Herning í Danmörku en mótið er haldið á tveggja ára fresti. Ég spyr Reyni út í mótið en hann náði bestum árangri Íslendinga. „Það er gríðarleg stemning á svona móti og þetta er mikil upplifun, þarna eru fleiri þúsund áhorfendur. Ég fór með hestinn minn, Greifa frá Holtsmúla, og við unnum tvenn silfurverðlaun og eitt gull á mótinu.“

Kveðjustundin erfið
„Íslendingar mega ekki koma með hestana sína aftur til Íslands ef þeir fara með þá erlendis svo það var komið að leiðarlokum hjá okkur Greifa. Þetta var erfið stund, átta ára samvinna og það féllu nokkur tár. Ég hugga mig við það að hann fór á góðan stað og vonandi mun hann veita nýjum eiganda góðar stundir í framtíðinni.“
En hvað tekur nú við? „Það er að finna nýjan hest, byggja hann upp og mæta hnarr­reistur að tveim árum liðnum og verja titilinn,“ og með þeim orðum kveðjumst við.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs