Tengingin við bæjarbúa gefandi

valdimarbirgis

Valdimar Birgisson stofnaði Viðreisn í Mosfellsbæ, leiddi listann í síðastliðnum sveitarstjórnarkosningum, náði kjöri og situr nú í bæjarstjórn. Hann segir starfið vera lærdómsríkt en það sem er mest gefandi er ekki endilega þetta pólitíska vafstur heldur tengingin við bæjarbúa.
Hann lítur björtum augum til framtíðar þótt mörg verkefni séu krefjandi og vill sjá blómstrandi bæ sem tekur mið af þörfum allra íbúanna.

Valdimar er fæddur á Ísafirði 1. júní 1962. Foreldrar hans eru þau María Erla Eiríksdóttir fv. verslunarmaður frá Keflavík og Birgir Breiðfjörð Valdimarsson fv. útgerðarmaður frá Ísafirði. Valdimar á þrjár systur, Stefaníu f. 1957, Oddnýju Báru f. 1958 og Erlu Kristínu f. 1969.

Æskuminningar frá Ísafirði
„Ég er alinn upp á Ísafirði og það var að mörgu leyti gott að alast upp þar. Maður naut mikils frelsis en á sama tíma var vinnusemi mikil. Eftir á að hyggja þá var þetta of mikið fyrir börn og unglinga, þ.e.a.s. að vinna eins og fullorðið fólk, jafnvel erfiðisvinnu.
Æskuminningar mínar tengjast aðallega Ísafirði og þá helst fjölskyldu minni. Ein sterkasta minning mín er þegar foreldar mínir komu heim með yngri systur mína nýfædda af spítalanum. Við bjuggum í blokk á móti spítalanum og ég horfði á þau út um gluggann koma gangandi og beið spenntur eftir að fá þau inn.“

Naut þess að æfa skíði
„Ég gekk í Barnaskóla Ísafjarðar og síðar Gagnfræðaskólann. Skemmtilegust voru þau fög sem tengdust sögu og landafræði en íslenska og þá sérstaklega stafsetning voru ekki í uppáhaldi. Eftir útskrift úr gaggó fór ég að vinna fyrst í stað en var einnig sem mest á skíðum. Skíðaaðstaðan á Ísafirði var á þessum tíma ein sú besta á landinu og ég naut þess æfa skíði og vera í fjallinu.
Árið 1980 fór ég til Reykjavíkur og sótti nám við Fjölbrautarskólann í Ármúla en starfaði sem sjómaður á Ísafirði á sumrin. Ég flutti svo alfarið suður árið 1989 og fór að vinna við sölustörf, innflutning á snyrtivörum og við kvikmyndagerð.
Árið 1993 færði ég mig svo yfir til Miðlunar ehf. sem gaf út bækur með upplýsingum um fyrirtæki. Þar var reynt að nýta netið sem best sem þá var að yfirtaka heiminn.“

Kúrustundirnar í sófanum bestar
Valdimar giftist Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni 24. júní 2005. Þau eiga samtals sex börn, Aldísi Maríu f.1984, Matthías Má f. 1994, Diljá Björt f. 1997, Þorbjörgu Eddu f. 2003, Bríeti Erlu f. 2006 og Birgi Marzilíus f. 2008. Barnabörnin eru tvö.
„Samverustundir með fjölskyldunni eru helst að kúra í sófanum og horfa saman á mynd. Við höfum líka gaman af því að spila og eigum gott safn af spilum. Við erum nokkuð dugleg að fara á skíði og höfum farið nokkrum sinnum til Frakklands og eins höfum við skíðað mikið á Ísafirði.
Sigga Dögg er ættuð frá Seljalandi undir Eyjafjöllum og þar eigum við samastað sem við notum talsvert.“

Hóf fjölmiðlaferilinn á Fréttablaðinu
„Ég hafði í langan tíma haft áhuga á að starfa við fjölmiðla og sótti um nokkur störf. Tækifærið kom svo þegar Fréttablaðið hóf göngu sína. Eftir ævintýralegan vöxt blaðsins hætti ég störfum þar og við hjónin stofnuðum okkar eigin fjölmiðil, vikublaðið Krónikuna. Það var metnaðarfullt verkefni sem því miður gekk ekki. Við vildum gefa út blað sem væri stjórnað af konum. Á þessum tíma var flestum fjölmiðlum ritstýrt af körlum og konur voru síður sýnilegar, þessu vildum við breyta.
Blaðið var selt til DV og við hjónin fylgdum með og hófum störf þar.“

Úr miðborginni í sveitina
„Árið 2008 ákvað Sigga Dögg að breyta um starfsvettvang og hóf vinnu hjá Mosfellsbæ sem kynningarstjóri. Það var ástæða þess að við fluttum í Mosfellsbæ og við sjáum ekki eftir því. Við vildum komast úr miðborginni í sveitina því hér áttum við fjölskyldu og vini.
Helgarblaðið Fréttatíminn var stofnað árið 2009 og kom ég að stofnun þess. Aftur var markmiðið að höfða til kvenna. Það verkefni gekk ágætlega en fjárhagslega var þetta mjög erfitt. Nú er ég kominn hringinn og starfa í dag sem markaðsfulltrúi á Fréttablaðinu og líkar vel.“

Ekki ætlun mín að fara í framboð
Valdimar stofnaði og leiddi lista Viðreisnar í Mosfellsbæ í sveitastjórnarkosningunum í vor, náði kjöri og starfar nú sem bæjarfulltrúi. En hvað var það sem leiddi hann út í pólitík? „Þannig var að ég hafði verið skráður í Viðreisn frá stofnun flokksins og hafði starfað þar með mörgum af flokksfélögum mínum sem stofnuðu hann. Það var ýtt á mig að stofna félag Viðreisnar í Mosfellsbæ og ég sló til.
Það náðist að safna saman frábærum hópi fólks og það varð úr að ég myndi leiða listann. Það var ekki ætlun mín að fara í framboð, bara alls ekki, en svona gerast hlutirnir stundum. Kosningabaráttan var skemmtileg en þetta var gríðarleg vinna. Við náðum kjöri og urðum næststærsti flokkurinn í Mosfellsbæ.
Okkur félögunum í Viðreisn hefur gengið mjög vel að vinna saman eftir kosningar enda ótrúlega samhentur hópur.“

Það hefur verið mikið að meðtaka
„Starfið í bæjarstjórn hefur verið lærdómsríkt frá upphafi og það hefur verið mikið að meðtaka. Það sem er kannski mest gefandi í þessu starfi er ekki endilega þetta pólitíska vafstur heldur tengingin við bæjarbúa. Ég hef nokkrum sinnum verið tekinn tali jafnvel þegar ég er úti að skokka með hundinn minn og þá eru það bæjarbúar sem vilja koma einhverju að. Mér þykir vænt um það því þannig á starfið að vera, vinna fyrir íbúana og hlusta á þá.
Það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum hjá Viðreisn,“ segir Valdimar að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 18. október 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs